Í dag var laufabrauðsdagur í Finnbogastaðaskóla. Laufabrauðsgerð er gamall íslenskur siður sem ekki þekkist annars staðar í heiminum. Að minnsta kosti ekki svona þunnar og fallega skreyttar kökur. Útskurðurinn minnir á lauf þegar brauðið hefur verið steikt og talið er að nafnið á kökunum megi rekja til þessa.
Líkast til þá var laufabrauðsgerð leið fátækra til að gera vel við sig um jólin. Oft var nú lítið til af hveitimjöli á bæjunum og brauðið var því haft afar þunnt. Hægt var að steikja margar fallegar kökur úr frekar litlu hráefni. Kökurnar gáfu samt alltaf magafylli og voru heilmikil og falleg búdrýgindi með hangikjötinu.
Laufabrauð er skreytt með mismunandi mynstrum. Sum bera nöfn eins og bóndamynstur, einföld stjarna, áttablaða stjarna og stjörnuregn. Einnig hafa kirkjur og burstabæir verið vinsælar skreytingar í áratugi.
Aðalatriði hjá okkur í dag var að viðhalda skemmtilegri jólahefð og eiga notalega stund saman á aðventunni. Öll börn sveitarinnar mættu galvösk vopnuð hnífum og skurðarbrettum og tóku til við að skapa hvert listaverkið á fætur öðru !
Jólakveðja
Steinunn heimilisfræðikennari
p.s. uppskriftin er einföld og fengin hjá Binnu frænku.
Að viðbættum breytingum fyrir þá sem það vilja.
Laufabrauð
1 kg hveiti (eða fínmalað spelt)
1 líter mjólk (eða rísmjólk og þá minni sykur)
50 g smjör eða smjörlíki
2 tsk lyftiduft (eða 3 1/2 tsk vínsteinslyftiduft)
1 1/2 tsk salt
2 msk sykur (má sleppa, pálmasykur gefur heldur mikið karamellubragð)
Mjólk og smjör er hitað að suðu. Þurrefni eru sett í hrærivélaskál (geymi oftast hluta af hveitinu til að setja á borðið) og heitum vökvanum blandað saman við. Deigið unnið saman með hnoðaranum og svo fært á borðið og hnoðað áfram þar til það er frítt frá borði og auðvelt í meðförum. Deiginu er skipt í fjóra hluta og rúllað upp í lengjur, sem geymdar eru í smjörpappír undir röku viskastykki. Hver lengja gefur um 10 til 12 kökur. Smá hluti af deiginu er flattur út í einu, mjög þunnt og svo er skorin út kaka eftir disk.
þegar búið er að skreyta kökurnar eru þær pikkaðar vel með gaffli og steiktar í snarpheitri steikingarfeiti í örfáar mínútur og lagðar til þerris á eldhúspappír.
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Bloggvinir
Tenglar
Tvist og bast í netheimum
- Númi Fjalar Númi Fjalar á myspace / aðeins fyrir útvalda ;D
- Gummi á Melum Guðmundur Björnsson
- Bæjarins besta Vestfirskar fréttir
- HSS Héraðssamband Strandamanna
- Galdrar Galdrasýning á Ströndum
- Kindur Sauðfjársetur á Ströndum
- Molar um Árneshrepp Árneshreppur í Wikipediu
- Félag Árneshreppsbúa Skemmtileg og stórfróðleg
- Veiðileysuætt Ættartal frá merkum bæ í Árneshreppi
- Djúpavík Flottasta hótel í heimi!
- Litli-Hjalli Jón Guðbjörn í Litlu-Ávík með ferskar fréttir
- Strandir Fréttir af Ströndum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.