SKÓLAFERÐALAGIÐ

Jæja þá erum við komin heim (allavega sumir) úr skólaferðalaginu okkar. Það tókst alveg svakalega vel og hér fyrir neðan getið þið lesið um það sem við höfðum fyrir stafni:

Fimmtudagur 3. apríl: Við fórum með flugi frá Gjögri og lentum í Reykjavík um 14:30. Við tókum leigubíl í íbúð í Sólheimum sem við höfðum tekið á leigu og skildum dótið eftir þar. Þaðan fórum við í keilu í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð og svo í bíó á myndina Ævintýri Hr. Píbodys og Sérmanns. Um kvöldið pöntuðum við pizzu frá Eldsmiðjunni og höfðum það notalegt. Ásta skrapp aðeins í afmæli til ömmu sinnar.

Föstudagur 4. apríl: Við vorum vakin eldsnemma eða 5:45 til að fara í flug til Vestmannaeyja. Þegar við komum á flugvöllinn var hinsvegar ófært þangað vegna þoku svo við tókum taxa á BSÍ og strætó þaðan í Landeyjarhöfn. Herjólfur sigldi svo með okkur til eyja. Sumir urðu svolítið sjóveikir en það jafnaði sig fljótt þegar við vorum komin í hendurnar á Óðni og Steinunni sem tóku á móti okkur á bryggjunni. Þau skutluðu okkur í skólann hans Jóntans Árna, Hamarskóla, þar sem var tekið afar vel á móti okkur. Við fengum leiðsögn um skólann og hittum fullt af skemmtilegu fólki eins og t.d. hana Önnu Lilju sundkennara sem kenndi okkur sund sl. vor. Jónatan bauð okkur svo í hádegismat heim til sín og þaðan fórum við að skoða bæði Sæheima og Safnheima. þar var sko margt að sjá og fræðast um. Leiðsögumennirnir okkar tóku svo vel á móti okkur að þær eiga hrós skilið. Tóti lundi var þó aðal númerið en hann er tæplega 2 ára gamall lundi sem fannst lítill og ræfilslegur og hefur átt heima í Sæheimum síðan. Við fórum aðeins á Stakkó sem er fallegur garður í hjarta Vestmannaeyja og svo í bakarí til að næra okkur örlítið og svo í góðan bíltúr um eyjuna þar sem heimamenn sögðu okkur margar sögur. Um kvöldið skelltum við okkur á 900 grillhús með fjölskyldunni á Áshamri og fengum ljúffenga máltíð.  Áður en við fórum heim tókum við einn rúnt upp á Stórhöfða en þar var töluverð þoka. Við enduðum daginn á að fara í pottinn með Jónatani en Ásta fékk að fara út í sjoppu með Brynjari Inga og öðrum unglingum Vestmannaeyja. 

Laugardagur 5. apríl: dagurinn hófst á morgunverði og svo skutumst við í sund. Í sundlauginni er frábært útisvæði þar sem eru t.d. klifurveggur, þreföld rennibraut og rennibraut með trampólíni í endann. Þaðan fórum við og fengum okkur hamborgara á veitingastað við sjávarsíðuna. Allir þurftu svo auðvitaða að fá að prófa að spranga. Það gekk vel hjá okkur og var mjög gaman. Jónatan Árni hélt svo upp á 9 ára afmælið sitt áður en við héldum í Herjólf. Áður en við fórum gáfum við þessari yndislegu fjölskyldu Steinunni, Óðni, Rúnari, Brynjari og Jónatani fallega gjöf, Íslenskar þjóðsögur, fyrir frábæra leiðsögn og móttökur. Takk fyrir okkur! Við tókum svo Herjólf í Landeyjarhöfn og svo strætó í borgina þar sem allir fóru til ættingja sinna.

Sunnudagur 6. apríl: Við hittumst við Gaflaraleikhúsið kl. 16:30 til að sjá leikritið Unglingurinn. Það var virkilega vel tekið á móti okkur og búið að taka frá sæti fyrir okkur á öðrum bekk fyrir miðju. Við hittum Björk Jakobsdóttur leikstjóra og hún spjallaði heilmikið við okkur og fannst mjög merkilegt að við værum heill skóli. Sjónvarpið var líka á staðnum því þetta var lokasýningin og það var verið að taka hana upp. Við þurftum því að æfa okkur að klappa þegar við fengum merki um það frá tæknimönnum og svoleiðis. Leikritið var alveg frábært og strákarnir sem leika og sömdu leikritið stóðu sig mjög vel. Allir fóru svo heim að leikriti loknu en þá var skólaferðalaginu formlega lokið. 

Þetta var frábær ferð Grin 

 Það eru myndir í albúmi!9.4.2014 143

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband