Þúsund manns í Félagi Árneshreppsbúa!

Meistarasmiðir og meistaranemendur!Síðustu daga hafa verið miklar framkvæmdir í Finnbogastaðaskóla, þökk sé góðum gestum sem nú eru hér í sveitinni hjá okkur. Kiddi og Palli hafa skipt um glugga í skólastjóraíbúðinni og lagt glansandi parkett, sem er einsog fínasta skautasvell.

Við komumst að því að Kiddi er formaður í Félagi Árneshreppsbúa og ákváðum að leggja fyrir hann nokkrar spurningar.

Fyrst spurðum við hversu margir væru í félaginu. Júlíana giskaði á að 10 væru í félaginu en Ásta taldi að þeir væru bara tveir! Svarið kom þess vegna stórkostlega á óvart:

Næstum þúsund manns eru í Félagi Árneshreppsbúa!

Kiddi var næst spurður um starf félagsins, og hann sagði okkur að aðalfundur verði haldinn eftir tíu daga, 11. nóvember, og það er líka kaffisamsæti og myndasýning. Svo verður dansleikur og árshátíð í mars og þar verður mikið fjör. Félagið gefur líka út fréttabréf, 2-3 á ári.

Félagið var stofnað 10. apríl 1940 og við reiknuðum út að það er þess vegna orðið 67 ára.

Kiddi heitir fullu nafni Kristmundur Kristmundsson og er frá Gjögri. Júlíönu fannst gaman að heyra að hann fór í skóla með pabba hennar. Kiddi er vélfræðingur og meistari í vélsmiði, en hann og Palli geta smíðað allt sem þeir vilja, algjörir meistarar!

Konan hans heitir Elín Elísabet og þau eiga fimm börn! Fósturdætur Kidda heita Sigrún Hanna og Sandra Dögg, dæturnar heita Anna Kolbrún og Íris Kristrún og saman eiga þau Elín Elísabet Kristmund Sörla.

Okkur fannst mjög merkilegt að Kiddi skuli eiga fjórar dætur -- tvöfalt fleiri en við erum hér í Finnbogastaðaskóla!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú hef ég bara gleymt blogginu ykkar lengi. Þið eruð algerir meistararar í faginu og nauðsynlegir fréttaritarar byggðarlagsins.

Ég læt það ekki henda mig aftur að gleyma ykkur.

En nýlega var ég að lesa það í blaði að Hrafn Jökulsson skákmaður og blaðamaður væri búinn að ákveða að búa þarna fyrir norðan í vetur. Það verður gaman fyrir ykkur að fá hann til að æfa ykkur í skákinni.

Ég dauðöfunda hann.

Bestu kveðjur úr Stórholti 14.

Árni Gunnarsson, 1.11.2007 kl. 12:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband