Þá voru 60 nemendur í Finnbogastaðaskóla...

Regnbogi í NorðurfirðiHaukur Jóhannesson sendi okkur skemmtilegt bréf, sem við þökkum kærlega fyrir. Við hvetjum fleiri til að senda okkur minningar úr Finnbogastaðaskóla. 

Heilar og sælar stúlkur. Það er gaman að sjá hvað þið eruð duglegar að setja upp þessa heimasíðu og halda henni við. Mér hlýnar vitaskuld um hjartaræturnar þegar ég sé minnst á Finnbogastaðaskóla. Þar átti ég heima í nokkur ár, 1949-1955.

Þá voru um 60 börn í skólanum og voru 30 þeirra í einu í skólanum en 30 heima. Þá voru flest börnin í heimavist á efri hæðinni og þar voru einnig fjölskylda skólastjórans og matráðskona. Niðri voru svo kennslustofurnar og eldhúsið eins og enn er.

Á efri hæðinni var matráðskonan í litla herberginu norðanmegin en fjölskylda skólastjórans í tveimur herbergjum þar á móti sem vita upp að Bæ. Nemendurnir gistu í herbergjunum tveimur sem vita að Finnbogastöðum. Þar voru þriggja hæða kojur fyrir fimmtán nemendur eða svo í hvoru herbergi. Stúlkurnar voru í herberginu nær þjóðveginum að mig minnir.

Skömmu eftir að ég flutti í skólann var skólastjóraíbúðin byggð og þá rýmkaðist heldur í húsinu. Svo var fjós, fjárhús og hlaða niður við þjóðveginn sem skólastjórinn hafði til afnota. Vitaskuld þurfti að afla matfanga fyrir mötuneytið og þau þurfti að sækja í kaupfélagið.

En í þá daga var ekki neinn akvegur og skólastjórinn fór yfir í Tangann (Norðurfjörð) á trillu sem hann átti og flutti aðföngin yfir Víkina. Mér eru þær ferðir minnisstæðar.

Myndin var tekin í Norðurfirði á dögunum, þegar vindurinn ólmaðist og himinninn skreytti sig með þessum fallega regnboga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband