Útli

Í morgun skelltum við okkur í skemmtilegan leik í myrkrinu sem heitir Útli. Þessi leikur hefur fylgt skólanum í mörg herrans ár og er mjög skemmtilegur felu-eltingaleikur. Krakkarnir höfðu mjög gaman af og ekki síður þessir fullorðnu sem gengu í barndóm um stund. Útli er stytting á nafninu Útilegumannaleikur en hann þekkja sumir frá sinni barnæsku.

untitled


Sólar-pönnukökur

Rétt eftir hádegi í gær gladdi sólin okkur í Finnbogastaðaskóla. Hún kíkti yfir skörðin í Árnesdal og sendi dansandi geisla sína yfir skólabækurnar. Við finnum að hver dagur verður lengri og þrátt fyrir kalda vetrarkossa vindsins, þá er bjart yfir öllu hér í Trékyllisvíkinni.

Sérstaklega kátu börnunum sem með blíðum brosum sínum, gátu galdrað fram sólar-pönnukökur í morgun !

Gleðilega sólardaga sveitungar nær og fjær !

Kveðja frá nemendum Finnbogastaðaskóla  

2010-12-23 22.30.02 


Vöffluveislan sló í gegn

Nemendur Finnbogastaðaskóla ákváðu að bjóða upp á vöffluveislu síðasta miðvikudagskvöld. Það vakti verðskuldaða lukku á meðal gesta. Nemendurnir hrærðu deigið í skólanum samkvæmt leynilegri uppskrift og fengu lánuð vöfflujárn heima fyrir. 

Vöfflurnar voru svo bakaðar um kvöldið og boðið var upp á heita súkkulaðisósu, þeyttan rjóma og niðurskorna ávexti til viðbótar við heimalagaðar sultur af öllum gerðum.


2010-12-22 08.55.32

 

 

 

 

 

 

 

Ekki var þetta nú alveg að tilefnislausu, því félagsvist var haldin í félagsheimilinu.

Félagsvistin er fyrst og fremst gleðileg tilbreyting en líka fjáröflun fyrir skólaferðalag barnanna í vor.

Sigurvegarar kvöldsins voru hjónin á Kjörvogi Hávarður og Sveindís, en þau fengu sitt hvora bókina að launum. Þórey, Ingólfur og Björn fengu líka viðurkenningar fyrir afar áhugaverða frammistöðu í spilamennskunni.

2010-12-22 10.14.17 


Félagsvist í kvöld!

Allir eru velkomnir í félagsvist í Félagsheimilinu klukkan 8 í kvöld. :P

Aðgangseyrir og vöffluveisla kosta saman 800 krónur. :D

Kv. Ásta Þorbjörg, Brynjar Ingi, Brynjar Karl, Kári, Þórey, Jónatan og Aníta :P 

spil...spil

Gos og Hraun

Eldgosið séð frá Friðarhöfn

Í gær 23. janúar voru liðin 40 ár frá upphafi eldgossins á Heimaey. Vestmannaeyingar vildu á þessum tímamótum minnast með þakklæti að allir eyjamenn björguðust þessa fyrstu hamfaranótt.

Gosið á Heimaey tók þó eitt mannslíf og þriðjung heimila eyjaskeggja áður en yfir lauk. Ekki fluttu allir eyjamenn heim aftur að gosi loknu, sumir áttu ekki að neinu að hverfa, hvorki atvinnu né heimili.
Enn þann dag í dag búa færri eyjamenn á Heimaey en fyrir gos.
Samtakamáttur, dugnaður, stöndug útgerð, þrjóska og passlegur skammtur af æðruleysi gerði það að verkum að eyjamenn gátu með góðri hjálp byggt upp eyjuna sína á ný.   

Vestmannaeyingarnir í Finnbogastaðaskóla buðu upp á gos og hraun í tilefni dagsins. Þess má geta að nemendur skólans hafa alla síðustu viku fengið fróðleiksmola um Vestmannaeyjar og Heimaeyjargosið í formi myndbanda, sagna og tónlistar.

206208


Hnútakennsla

Á mánudaginn komu Ingvar og Óðinn í tíma til okkar og kenndu okkur að búa til nokkra hnúta. Þeir voru á námskeiði í fjallamennsku og langaði til að sýna okkur hvað þeir voru að læra þar. Okkur fannst mjög gaman að læra þessa hnúta og við getum nýtt okkur þá þegar við þurfum að síga og bjarga fólki eða bílum. Anítu fannst skemmtilegast að binda fiðrildahnút en Jónatani og Þóreyju fannst skemmtilegast að gera áttuhnút.                                2010-12-05 23.55.492010-12-05 23.58.092010-12-05 23.58.23

Nýr nemandi í Finnbogastaðskóla

það er nú ekki á hverjum degi sem nýr nemandi byrjar í Finnbogastaðaskóla en það gerðist nú samt einn dag í síðustu viku. Hann Brynjar Karl er nú byrjaður í skólanum og bjóðum við hann velkominn í hópinn. Nemendur eru nú orðnir 7 í 1.-8. bekk. Við erum mjög ánægð með ört stækkandi Finnbogastaðaskóla.

2010-12-05 23.58.51


Jólafrí

Í dag héldum við litlu jólin okkar hátíðleg hérna í skólanum. Klukkan 13:30 veður svo jólaball þar sem við munum syngja og dansa með fjölskyldum okkar. Að því loknum förum við í jólafrí. Við viljum nota tækifærið og óska ykkur öllum gleðilegra jóla velfarnaðar á nýju ári. Takk fyrir samveruna hérna á síðunni.

Gleðileg jól

192

Þessa mynd teiknuðum við á töfluna í tilefni jólahátíðarinnar!


Laufabrauðsgerð

Í dag var laufabrauðsdagur í Finnbogastaðaskóla. Laufabrauðsgerð er gamall íslenskur siður sem ekki þekkist annars staðar í heiminum. Að minnsta kosti ekki svona þunnar og fallega skreyttar kökur. Útskurðurinn minnir á lauf þegar brauðið hefur verið steikt og talið er að nafnið á kökunum megi rekja til þessa.
 
Líkast til þá var laufabrauðsgerð leið fátækra til að gera vel við sig um jólin. Oft var nú lítið til af hveitimjöli á bæjunum og brauðið var því haft afar þunnt. Hægt var að steikja margar fallegar kökur úr frekar litlu hráefni. Kökurnar gáfu samt alltaf magafylli og voru heilmikil og falleg búdrýgindi með hangikjötinu.

Laufabrauð er skreytt með mismunandi mynstrum. Sum bera nöfn eins og bóndamynstur, einföld stjarna, áttablaða stjarna og stjörnuregn. Einnig hafa kirkjur og burstabæir verið vinsælar skreytingar í áratugi.

Aðalatriði hjá okkur í dag var að viðhalda skemmtilegri jólahefð og eiga notalega stund saman á aðventunni. Öll börn sveitarinnar mættu galvösk vopnuð hnífum og skurðarbrettum og tóku til við að skapa hvert listaverkið á fætur öðru !

DSC02841

DSC02840

DSC02844

DSC02842

Jólakveðja

Steinunn heimilisfræðikennari

p.s. uppskriftin er einföld og fengin hjá Binnu frænku.
 Að viðbættum breytingum fyrir þá sem það vilja.

Laufabrauð

1 kg hveiti (eða fínmalað spelt)
1 líter mjólk (eða rísmjólk og þá minni sykur)
50 g smjör eða smjörlíki
2 tsk lyftiduft (eða 3 1/2 tsk vínsteinslyftiduft)
1 1/2 tsk salt
2 msk sykur (má sleppa, pálmasykur gefur heldur mikið karamellubragð)

Mjólk og smjör er hitað að suðu. Þurrefni eru sett í hrærivélaskál (geymi oftast hluta af hveitinu til að setja á borðið) og heitum vökvanum blandað saman við. Deigið unnið saman með hnoðaranum og svo fært á borðið og hnoðað áfram þar til það er frítt frá borði og auðvelt í meðförum. Deiginu er skipt í fjóra hluta og rúllað upp í lengjur, sem geymdar eru í smjörpappír undir röku viskastykki. Hver lengja gefur um 10 til 12 kökur. Smá hluti af deiginu er flattur út í einu, mjög þunnt og svo er skorin út kaka eftir disk.

þegar búið er að skreyta kökurnar eru þær pikkaðar vel með gaffli og steiktar í snarpheitri steikingarfeiti í örfáar mínútur og lagðar til þerris á eldhúspappír.





 


Samhverfur

Við vorum að skoða áhugaverðar samhverfur núna áðan. Ef þið vitið ekki hvað samhverfur eru þá er það þannig orð eða setningar sem er bæði hægt að lesa afturábak og áfram. Okkar uppáhalds samhverfur eru þessar:

Ásta: Sægröm mörgæs
Kári: Rassar
Brynjar: Kórea er Ó.K.

Kveðja Ásta, Kári og Brynjar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband