Færsluflokkur: Bloggar

Hvað finnst þér best við jólin?

Algjör jólasveinnVið erum búnar að setja inn nýja skoðanakönnun og biðjum alla lesendur að greiða atkvæði í dálkinum hérna hægra megin á síðunni.

Spurningin er: Hvað finnst þér best við jólin?

Svarmöguleikar eru:

Pakkarnir

Maturinn

Samveran

Eftirréttirnir

Að sofa út

Vera í sparifötunum


Jólaföndur í Finnbogastaðaskóla

Jólaföndur í FinnbogastaðaskólaJólin eru að koma! Nú þarf að huga að því að skreyta skólann okkar og við erum svo sannarlega byrjaðar.

Í gær fengum við marga góða gesti í skólann í jólaföndur og Hrefna bauð upp á kakó og gómsætar veitingar.

Margir jólasveinar fæddust, falleg kerti og skreytingar.

Á myndinni erum við með Selmu, Guggu og Margréti, sem er að kenna okkur listina að skreyta kerti.


Glaðbeittur snjókarl

SnjókarlaknúsÍ garðinum við skólann býr nú glaðbeittur snjókarl, sem fylgist vandlega með veðurfréttum og vonar að frostið endist sem lengst.

Júlíana og Ásta sköpuðu hann í sameiningu og tókst svo sannarlega vel upp.

Snjókarlinn er skælbrosandi og virðist beinlínis hlýlegur, svona með opinn faðminn.


Spakmæli vikunnar

Eiðrofi í klakaböndumÞeir vita það best, hvað vetur er,

sem vorinu heitast unna.

Spakmæli vikunnar var að þessu sinni valið í sameiningu af Ástu, Júlíönu og Elínu. Þessi fallegu orð eru eftir skáldið góða, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

Myndina tók Hrafn af fossinum Eiðrofa í Djúpavík. Fossinn sá er sannarlega í klakaböndum.


Aleinir kettir

Kúrt spunameistariElín og Hrafn skruppu frá í nokkra daga og við notuðum tækifærið og fylgdumst með kisunum þeirra:

Kettirnir sem Hrafn og Elín eiga eru aleinir heima hjá sér. Bernharð tekur þessu afskaplega rólega enda hefur hann félagsskap.

Kúrt finnst hins vegar skrýtið að eigendurnir séu farnir og er þess vegna svolítið hræddur við okkur, sem gefum honum mat.

Óskar lætur lítið fyrir sér fara, en við sjáum honum samt bregða fyrir.

Myndin: Kúrt var fljótur að taka gleði sína þegar Elín og Hrafn komu heim.


Froskur úr fornöld?

KvikindiHann étur allt sem að kjafti kemur, segir Ásta Þorbjörg um froskinn í Árnesi. Hann heitir Kvikindi og er eini froskurinn í Árneshreppi.

Hvað er þessi græni (eða guli) herramaður gamall? Ásta er ekki viss: Eldgamall, eldri en ég, líklega síðan í fornöld.

En leiðist honum ekki að vera eini froskurinn í sveitinni?

Kannski, segir Ásta, en ef annar froskur kæmi er ég viss um að Kvikindi myndi éta hann!


Bráðum koma sætir hvolpar...

Pjakkur og Hæna 3Eftir Ástu Þorbjörgu. 

Bráðum koma sætir hvolpar í Árnesi 2. Foreldrar hvolpanna eru Pjakkur og Hæna, öðru nafni Púdda, en ég var að hugsa um að skíra hundinn Hana. Og einn hvolpinn Kjúkling.

En Pjakkur er bara í heimsókn en Hæna á heima hérna í sveitinni.

Hér kemur mynd af Pjakki og Hænu.


Spakmæli vikunnar

Steingrímur skáldHefndin er heimskunnar fró, hún grípur ætíð í tómt.

Ásta valdi spakmæli vikunnar, sem er eftir Steingrím Thorsteinsson. Hann er einmitt eitt af eftirlætisskáldunum Ástu, sem kann bæði Smaladrenginn og Þingvallasöng.


Dularfulli hvalurinn

HvalbeiniðÞetta er hvalbein sem Hrafn fann í lítilli vík í gær. Ansi stórt, ekki satt? Við vitum ekki alveg úr hvaða hval beinin eru, en Ásta giskar á steypireyði sem er stærsta dýr sem nokkru sinni hefur lifað á jörðinni!

Það er náttúrlega ekki alveg víst, svo við biðjum lesendur að koma með tillögur.

Skylmingar að hætti fornmannaFyrir meira en þúsund árum var barist í Árneshreppi út af hval, sem rak á Reykjarnesi. Þá notuðu menn meðal annars hvalrif sem barefli, enda geta þau verið hættuleg vopn.

Við prófuðum að skylmast, en það var auðvitað allt í góðu.


Ég er bara ég

NáttfuglLjóð eftir Júlíönu Lind. 

Eins og fuglinn er ég fleyg,

og flýg yfir fjöll og dali.

Á dimmum nóttum ég seig

inn í endalausan svefn.

Ég veit það ekki alveg en innst inni

heyri ég kattarmal.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband