Færsluflokkur: Bloggar

Vorljóð í snjónum

Árný smalastúlkaÁsta er að læra ljóð eftir Steingrím Thorsteinsson (1831-1913) sem var eitt af þjóðskáldum Íslendinga. Uppáhaldsljóð Ástu er Smaladrengurinn, sem henni finnst mjög skemmtilegt og þar að auki mjög gaman að lesa ljóð um vorið og sumarið þegar veturinn er genginn í garð hér í Árneshreppi.

Smaladrengurinn, gjörið svo vel:

Út um græna grundu
gakktu, hjörðin mín.
Yndi vorsins undu.
Eg skal gæta þín.

Sól og vor ég syng um,
snerti gleðistreng.
Leikið, lömb, í kringum
lítinn smaladreng.

Myndin er af smalastúlkunni Árnýju frá Melum.


Ein stór fjölskylda

Ísleifur GíslasonJúlíana er alveg hugfangin af lítilli vísu, sem er svona:

Aldrei sá ég ættarmót
með eyrarrós og hrafni.
Allt er þó af einni rót
í alheims gripasafni.

Fyrri hlutinn er eftir Ísleif Gíslason (1873-1960)  en sá seinni eftir Ólínu Jónasdóttur (1885-1956).

Mér finnst svo mikið sagt í fáum orðum, segir Júlíana, um hvernig allt líf á jörðinni er komið af einni rót.

Öll dýrin á jörðinni eru sem sagt frændur okkar og frænkur! Meira að segja köngulóin, sem Júlíönu hefur alltaf fundist alveg hryllileg, er skyld okkur. Lóa frænka, einsog Júlíana kallar köngulóna núna, er ekki nærri því eins skelfileg eftir að hún las vísuna eftir Ísleif og Ólínu.

Myndin er af Ísleifi, sem var kaupmaður og hagyrðingur á Sauðárkróki og langafi Hrafns. 


Ljósin slokkna

Syngjandi lambhrúturJúlíana var niðursokkin í líffræði og Ásta var að útbúa sjálft sólkerfið þegar rafmagnið fór af í morgun.

Sem betur fer höfum við ljósavél, sem hægt er að nota þegar rafmagnið fer. Annars hefðum við til dæmis ekki getað kveikt á tölvunni. Eða fengið ljúffengið kakósúpu hjá Hrefnu í hádeginu. 

Veturinn er að þramma í garð, segir Júlíana, sem finnst samt að veðrið upp á síðkastið hafi ekki verið neitt sérstaklega vont. Bara slydda og rok.

Urðarköttur, lukkudýrið okkar, hefur engar áhyggjur af rafmagnsleysinu. Einu áhyggjur hans eru af næsta pela! 


Dans er heillandi

Dans í TrékyllisvíkJúlíana: Enskur vals er mjög skemmtilegur. Og sporin eru einföld. Ég kenndi pabba meira að segja að dansa hann, og það var örugglega í fyrsta skipti í nokkur ár sem hann dansaði.

Sporin eru svona: maður stígur aftur með vinstri fót og til hliðar með hægri. Fram með hægri og til hliðar með vinstri. Ef ég geri mistök fer ég að hlæja.

Enskur vals kemur frá Ameríku. Það er æðislegt að ég og Ásta fáum þann heiður að læra að dansa!

Ásta: Nú er ég byrjuð að læra að dansa.

Mér finnst óþolandi þegar ég geri villur.

Mér finnst skemmtilegt þegar ég er að æfa sporin.

Mig langar að læra tangó líka. Ég hlakka til að læra tangó.


Spakmæli vikunnar

Hláturinn lengir lífiðEitt kýs ég mér: Að ég megi alltaf hafa hláturinn mín megin.

Ásta valdi spakmæli vikunnar og það er óskandi að sem flestir taki undir þessi orð með danska heimspekingnum Sören Kierkegaard (1813-1855).


Íbúum fjölgar í Árneshreppi!

Kúrt prinsKúrt stendur stoltur í Kattakastalanum í Trékyllisvík. Hann hefur líka ástæðu til að vera í góðu skapi: Kærastan hans, hún Ögn í Bæ, er kettlingafull!

Við sögðum frá trúlofun Kúrts og Agnar í byrjun september, en langt er síðan kettlingar fæddust hér í sveitinni.

Kúrt fæddist í mars og verður því bara 8 mánaða þegar fyrstu afkvæmi hans koma í heiminn. Ögn er dálítið eldri og lífsreyndari, enda er hætt við að uppeldið lendi að mestu á henni.

Ögn er frá Akureyri, þar sem mamma hennar var heimilisköttur en pabbinn var villiköttur.

Kúrt er hinsvegar frá Reykjavík. Mamma hans heitir Skotta og býr í Skólastræti en pabbinn er hvorki meira né minna en konungur villikattanna í sunnanverðum Þingholtum.


Fleiri búa í Árneshreppi en mannfólkið

Selir í TrékyllisvíkÞað búa fleiri í Árneshreppi en mannfólkið og húsdýrin. Nú erum við að vinna verkefni um dýrin sem lifa úti í náttúrunni.

Hérna eru refir, mýs, minkar og selir.

Og auðvitað margar tegundir af fuglum.

Við byrjum á því að segja frá rebba. Hér kunna allir sögur af honum en svo horfðum við líka á frábæra heimildarmynd sem heitir Frumbygginn og var tekin í Ófeigsfirði.

Næst ætlum við að segja ykkur frá músinni. Í Árneshreppi eru (sem betur fer) engar rottur, og litlu mýsnar eru ósköp meinlausar og sætar.

Mús í heimsóknEfri myndin er af forvitnum selum í Trékyllisvík. Það er sagt að þeir hafi mannsaugu.

Neðri myndin er af mús sem bjargað var úr klónum á Kúrt. Hún kemur örugglega aldrei aftur í heimsókn á skólalóðina!

Hérna fyrir neðan eru ritgerðir Ástu og Júlíönu um rebba.

 


Rebbi kom með ísjaka til Íslands fyrir 10 þúsund árum!

Rebbi á HlíðarhúsafjalliEftir Júlíönu Lind. 

Það eru til tvær tegundir refa, ein er hvít og ein er mórauð. Refir eru kallaðir ýmsum nöfnum, svo sem tófa, lágfóta, skolli og sitthvað fleira.

Refir sjá ekki vel, en heyrn og lyktarskyn eru talsvert betri. Tófa getur eignast sex afkvæmi, en þau eru kölluð yrðlingar. Aðalfæða refsins eru sjóreknir selir og svartfugl.

Stundaðar eru rannsóknir á refnum og eru þær stundum veiddir lifandi í gildrur og vigtaðir og sett á þá staðsetningartæki. Hægt er að geta sér til um aldur með því að skoða tennurnar.

Refir búa í grenum eða djúpum holum. Þeir hafa lifað á Íslandi í 10 þúsund ár og er talið að refir hafi komið til Íslands með ísjaka.

Tófa gefur frá sér hljóð sem nefnist gagg.

Þetta eru mjög falleg dýr og vonandi hef ég frætt þig nóg um refinn!

Myndin: Hrafn tók myndina í sumar uppi á Hlíðarhúsafjalli. Það er mikið um ref í Árneshreppi.


Mörg nöfn rebba

YrðlingurEftir Ástu Þorbjörgu.

Mér finnst refurinn sniðugur í fæðuleit. Hann er góður í að klifra í klettum. Hann getur fætt að minnsta kosti 6 yrðlinga í heiminn.

Refurinn er aðallega á ferli á nóttinni og á morgnana, minnst á daginn.

Refurinn er líka kallaður rebbi, tófa, skolli, lágfóta, melrakki, blóðdrekkur, dratthali, djangi, dýrbítur, holtaþór, skaufhali, vargur og vembla.

Refurinn hefur búið á Íslandi í 10 þúsund ár.

Myndin er af yrðlingi í Húsadýragarðinum. Smellið hér til að fara á vef Húsdýragarðsins, þar sem eru myndir og fróðleikur um rebba (og önnur íslensk dýr).


Hvað á sá ferhyrndi að heita?

Valgeir og ferhyrndi hrúturinnHrefna og Valgeir í Árnesi eignuðust mikinn dýrgrip í vor: Ferhyrndan hrút.

Hann braggaðist vel í sumar, og í vetur mun hann búa í einkasvítu í fjárhúsunum. Hornin hans eru einsog spjót, svo það er ekki óhætt að hafa hann með öðrum hrútum. Svona ef hann kemst í vont skap.

En ferhyrndi hrúturinn er reyndar mesta gæðablóð, en þó er eitt sem hann vantar: Nafn.

Í morgun létum við hugann reika um nafn á hrútinn og höfum ákveðið að efna til kosninga meðal lesenda síðunnar. Svo takið endilega þátt í kosningunum hérna hægra megin á síðunni.

Möguleikarnir eru: Finnbogi rammi, Faxaflói, Geysir, Knútur, Hreggviður, Krabbi, Herra Háhorn og Geimálfur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband