Færsluflokkur: Bloggar
Ástrós Lilja er í heimsókn hjá okkur þessa dagana, svo það var aldeilis fjör í frímínútum hjá okkur í dag, enda snjóaði duglega í nótt.
Urðarköttur, lukkudýr Finnbogastaðaskóla, var að sjá snjó í fyrsta sinn og hann var dálítið hissa á því að grasið (maturinn hans) var allt í einu horfið undir þykkt, hvítt teppi.
En hann er duglegur að bjarga sér, og svo finnst honum líka mjög skemmtilegt í leiktækjunum. Uppáhaldið hans er að stanga belginn sem við notum sem rólu.
Urðarköttur er eiginlega mest hissa á því að fá ekki að koma inn í skóla og taka þátt í kennslustundunum!
Bloggar | 2.10.2008 | 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Okkur þykir rosalega gaman að fá kveðjur í gestabókina okkar hérna á síðunni, og við þökkum öllum sem hafa sent okkur línu. Kveðjurnar hafa komið úr öllum áttum og núna síðast alla leið frá Kína! Þar hún Kría litla, vinkona okkar, og verður næstu mánuðina. Hún var svo heppin að komast í hestahringekju og við vonum að við heyrum sem fyrst af fleiri ævintýrum hennar.
Með því að smella hérna má fræðast um Kína.
Bloggar | 2.10.2008 | 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég heiti Júlíana Lind Guðlaugsdóttir og ég á heima í Trékyllisvík á Íslandi, og amma mín átti heima á Dröngum eins og pabbi þinn, hann Eiríkur.
Hér koma spurningar:
Hvernig leit Vínland út?
Hvernig voru indíánar?
Hefurðu séð ísbjörn?
Fannst þér gaman á vorblóti?
Hver var uppáhaldsguðinn þinn eða ásinn?
Áttirðu konu eða börn? Ef svo er, hvað hétu þau?
Eru þetta kannski of margar spurningar? Mig langar bara að vita svo mikið. Vissirðu að þú ert orðinn mjög frægur maður meðal þjóðarinnar? Og það eru til rosalega margar bækur um þig.
Ef þú veist ekki hvað bækur eru, þá eru þær hlutur sem við skrifum á, til dæmis vísur og gömul ljóð.
Bless, bless.
Júlíana
Efri myndin er af Elínu skólastjóra og Júlíönu með tignarleg Drangaskörðin í baksýn. Drangar tengja einmitt Júlíönu og Leif heppna. Neðri myndin er hugmynd listamanns um hvernig landkönnuðurinn mikli leit út.
Með því að smella hér má fræðast dálítið um Leif heppna.
Með því að smella hérna komist þið til Eiríksstaða, þar sem Leifur fæddist.
Bloggar | 2.10.2008 | 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sófus var svo glaður að sjá okkur, að hann hoppaði og skoppaði um allt búrið.
Hver er Sófus? Hann er kanínan á Finnbogastöðum, svarta kanínan í hvítu sokkunum.
Sófus er eina kanínan í Árneshreppi. Nema það séu einhverjar villikanínur á kreiki...
Við fórum í heimsókn til Sófusar um hádegisbil og færðum honum fífla (og eina sóley) en það finnst Sófusi mikill hátíðarmatur.
Honum var ekki vitund kalt, enda með góðan feld. Og svo getur hann alltaf skriðið inn í húsið sitt. Hann er meira að segja búinn að grafa göng inn í húsið sitt.
Við höfum dálitlar áhyggjur af því að Sófusi leiðist, og ætlum að stinga upp á því við Munda að útvega vinkonu fyrir Sófus litla krútt.
Bloggar | 30.9.2008 | 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fjöllin í Trékyllisvík eru komin í hvítan kufl og kuldaboli er sannarlega kominn aftur í sveitina okkar. Þegar við fórum út í hádeginu lentum við í hagléli!
Við hringdum í Jón Guðbjörn, veðurathugunarmann í Litlu-Ávík, og hann sagði okkur að hitinn í morgun hefði verið 2,6 gráður.
Júlíana hlakkar til að fá snjóinn en vill helst bíða með hann þangað til í desember. Ástu finnst ágætt að hafa snjóinn í fjöllunum, en vill helst ekki hafa hann á túnunum, því þá þarf að reka kindurnar í hús.
Og þá er ekki hægt að sveifla sér í fjárhúsunum, segir Ásta. Við erum nefnilega með kaðla í fjárhúsunum og þar er svo skemmtilegt að leika sér.
Bloggar | 30.9.2008 | 13:05 (breytt kl. 13:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við fengum algert sælgæti hjá Hrefnu í hádeginu: fjallagrasamjólk. Númi (bróðir Ástu) tíndi fjallagrösin þegar hann var í smalamennsku um daginn og við nutum góðs af því.
Við mælum með því að allir prófi, og hér er uppskriftin -- þið talið við Núma ef ykkur vantar fjallagrösin!
3/4 lítrar mjólk
1 hnefi fjallagrös
1-2 matskeiðar púðursykur
1/2 teskeið salt
1. Mjólkin er hituð 2. Grösin eru hreinsuð og þvegin vel, látin út í sjóðandi mjólkina 3. Soðin í 2-3 mínútur 4. Salti og sykri bætt í.
Verði ykkur að góðu!
Myndin er af Hrefnu með fjallagrösin góðu.
Hérna má lesa allt um fjallagrös.
Bloggar | 30.9.2008 | 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
skal maður vinur vera
og gjalda gjöf við gjöf.
Ásta valdi orð dagsins sem eru úr Hávamálum. Hún segir (og Júlíana er hjartanlega sammála) að vináttan sé mikilvægust af öllu.
Smellið hér til að fræðast um Hávamál!
Bloggar | 29.9.2008 | 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hundatalið okkar sló heldur betur í gegn í fyrra, og hróður voffanna í Árneshreppi barst víða. Í fyrra voru hundarnir okkar tólf talsins, en nú eru þeir bara tíu. Nú er komið að hundatali 2008!
Báðir hundarnir á Finnbogastöðum, Tíra og Kolla, dóu í eldsvoðanum mikla í sumar. Mundi á Finnbogastöðum ætlar að bíða þangað til nýja húsið rís áður en hann fær sér nýja hunda.
Sámur gamli í Litlu-Ávík er líka dauður, en Snati litli var fenginn til að fylla skarð hans. Snati fæddist í vor og er lífsglaður og fjörugur hvolpur, sem fékk að spreyta sig í smalamennsku með Sigga í Litlu-Ávík um daginn.
Djúpavík: Tína.
Kjörvogur: Vísa.
Litla-Ávík: Snati.
Bær: Elding.
Árnes: Hæna, Rósa, Tíra.
Melar: Grímur.
Steinstún: Lappi.
Krossnes: Vala.
Smellið hér til að skoða hundatalið 2007.
Efri myndin er af Tíru og Kollu, tekin skömmu áður en bruninn varð á Finnbogastöðum.
Neðri myndin er af hinum lífsglaða Snata í Litlu-Ávík.
Bloggar | 29.9.2008 | 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við erum búnar að setja inn nýja skoðanakönnun, og biðjum alla að greiða atkvæði. Spurt er: Hvaða dýr finnst þér skemmtilegast?
Hægt er að velja kisu, hest, hund, kind, kanínu eða kú.
Júlíana vildi reyndar líka bjóða upp á gíraffa, sem henni finnst svakalega skemmtileg skepna, en við ákváðum að hafa bara íslensk dýr að þessu sinni.
Við erum með fleiri skemmtilegar skoðanakannanir, um uppáhalds árstíðina, fallegasta fjallið í Trékyllisvík og spurningu um hvort fólk hafi komið í Árneshrepp.
Sumarið og vorið eru allsráðandi og aðeins einn hefur (ennþá) greitt vetrinum atkvæði. Reykjaneshyrna ber höfuð og herðar yfir önnur fjöll (þó þau séu líka falleg) og langflestir af þeim sem hafa svarað hafa komið í Árneshrepp. Og hinir eru áreiðanlega á leiðinni!
Júlíana valdi myndina sem fylgir þessari frétt og þeir sem vilja vita ALLT um gíraffa geta smellt hér!
Bloggar | 24.9.2008 | 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bræðurnir Sindri Freyr og Brynjar Karl voru í heimsókn í skólanum okkar í gær, og þar með tvöfaldaðist fjöldi nemenda!
Strákarnir eru í skóla á Akranesi, Sindri í 5. bekk og Brynjar í 3. bekk. Þeir eru mjög skemmtilegir og við hlökkum til að fá þá aftur í heimsókn til okkar.
Það var mikið fjör í frímínútunum. Sindri fór á kostum enda er hann fæddur leikari!
Bloggar | 23.9.2008 | 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Júlí 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Bloggvinir
Tenglar
Tvist og bast í netheimum
- Númi Fjalar Númi Fjalar á myspace / aðeins fyrir útvalda ;D
- Gummi á Melum Guðmundur Björnsson
- Bæjarins besta Vestfirskar fréttir
- HSS Héraðssamband Strandamanna
- Galdrar Galdrasýning á Ströndum
- Kindur Sauðfjársetur á Ströndum
- Molar um Árneshrepp Árneshreppur í Wikipediu
- Félag Árneshreppsbúa Skemmtileg og stórfróðleg
- Veiðileysuætt Ættartal frá merkum bæ í Árneshreppi
- Djúpavík Flottasta hótel í heimi!
- Litli-Hjalli Jón Guðbjörn í Litlu-Ávík með ferskar fréttir
- Strandir Fréttir af Ströndum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 15
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar