Færsluflokkur: Bloggar

Óvæntur gestur í Kjósarrétt!

Óvæntur gesturÞað kom heldur betur óvæntur gestur í Kjósarrétt um helgina: Þriggja daga gömul gimbur!

Hún var náttúrlega laaangminnst af öllum í réttinni, en vakti líka laaangmesta lukku.

Litla gimbrin er frá Árnesi og vappar nú um túnin þar með mömmu sinni.

Á myndinni eru Ásta og Ástrós með lambið í Kjósarrétt. 


Spakmæli vikunnar

Eigirðu vin, máttu auðgan þig telja.

Júlíana valdi spakmæli dagsins, sem er eftir Menandros. Hann var grískt gamanleikjaskáld sem fæddist árið  342 fyrir Krist og Júlíana var eldfljót að reikna út að 2350 ár eru liðin frá fæðingu hans. Sjálf er Júlíana auðug, samkvæmt skilgreiningu Menandrosar, því hún á þrjár mjög góðar vinkonur.


Kúrt og Ögn trúlofast!

 

Kúrt og Ögn feimin við ljósmyndarannÞað hefur verið rólegur morgunn í Finnbogastaðaskóla.  Helmingur nemenda (Ásta Þorbjörg) og flestir í sveitinni eru úti að smala. Elín skólastjóri og Júlíana Lind voru að læra stærðfræði og náttúrufræði í mestu makindum þar til þær litu út um gluggann.

 

 

Þar var heldur betur eitthvað mjög spennandi að gerast og skemmtileg náttúrufræðikennsla um leið. Kúrt, sem er akkúrat sex mánaða í dag, og Ögn sem er sæta læðan í Bæ, voru að spóka sig í góða veðrinu og greinilega mjög ástfangin. 

   

 Júlíana, sérlegur fréttaljósmyndari heimasíðunnar, reyndi að ná mynd af  Hjartaknúsarinn og ljósmyndarinn ástfangna parinu sem var frekar feimið og erfitt að fá þau til að stilla sér upp fyrir myndatöku.

 





Við bíðum mjög spenntar eftir að sjá hvort það komi litlir kettlingar í Bæ fyrir jólin. Það væri nú jólagjöf í lagi fyrir litlu heimasæturnar þar, Anítu Mjöll og Magneu Fönn.

 


Lukkudýrið Urðarköttur

Urðarköttur og JúlíanaJúlíana hefur útnefnt heimalninginn Urðarkött sem lukkudýr Finnbogastaðaskóla. Ásta er ekki alveg viss um að hún sé sammála, enda getur Urðarköttur verið dálítið frekur í frímínútunum.

Urðarköttur er frá Melum, en missti mömmu sína þegar hann fæddist, og hefur búið í garðinum hjá skólastjórahjónunum í sumar.

Hann fær pela tvisvar á dag, en er líka svo duglegur að bíta að ekki hefur þurft að slá garðinn í allt sumar.

Urðarköttur heitir eftir frægasta íbúa Trékyllisvíkur, því þetta var nafnið sem Finnbogi rammi bar fyrstu ár ævinnar. 


Strandastelpur snúa aftur!

StrandastelpurJæja, kæru vinir, þá er skólinn kominn á fullt og tímabært að segja fréttir af strandastelpum!

Viðburðaríkt og skemmtilegt sumar er að baki og framundan er viðburðaríkur og skemmtilegur vetur í Finnbogastaðaskóla.

Nú er Júlíana komin í 6. bekk og Ásta í 3. bekk.

Við erum búnar að fá þessa fínu eldrauðu skólabúninga, sem þið sjáið á myndinni.

Og vita ekki allir hvað fjallið þarna heitir?

Ps. Endilega látið vita að síðan okkar sé komin á fullan skrið! 


Takk fyrir okkur! Sjáumst í haust

Gleði í lok skemmtilegs skólaársÞað var sannarlegur frábær andi við skólaslit í Finnbogastaðaskóla. Margir íbúar úr hreppnum komu til að gleðjast með okkur og boðið var uppá skemmtilegar ræður, dýrindis kræsingar -- og mjög góðar einkunnir!

Við skólaslitin var hún Badda okkar heiðruð sérstaklega, en hún er núna að hætta eftir áratuga starf í skólanum. Hún er örugglega vinsælasti kennarinn í sögu Finnbogastaðaskóla, einsog sást af öllum kveðjunum sem gamlir og ungir nemendur sendu henni.

Við munum sakna Böddu sárt, en vitum að hún verður ekki langt undan!

Við viljum þakka öllum sem hafa komið í heimsókn á heimasíðuna okkar síðan í haust. Það er ótrúlega að gaman að sjá að mörg þúsund gestir skuli hafa komið í skólann okkar. Sérstaklega þökkum við allar hlýju kveðjurnar í gestabókinni hér á síðunni.

Svo kveðjum við (í bili) með orðum Halldórs Laxness, sem voru greypt í pennann góða sem Badda fékk í kveðjugjöf:

"Sannleikurinn er ekki í bókum og ekki einu sinni í góðum bókum, heldur í mönnum, sem hafa gott hjartalag."

 


Hreiður á hjólum

Hreiður á hjólumFuglarnir í sveitinni okkar eru önnum kafnir við hreiðurgerð þessa dagana. Árneshreppur er 724 ferkílómetrar og því ætti að vera nóg pláss.

Samt taldi ein maríuerla á Melum hyggilegast að gera sér hreiður inni í jeppanum þar -- nánar tiltekið upp við vinstra framhjólið.

Badda á Melum fann þennan óvenjulega laumufarþega í vikunni, en þá hafði hreiðrið greinilega ferðast talsvert um sveitina.

Engin egg eru komin í hreiðrið og unnið er að framtíðarlausn á þessum óvænta vanda... 


Ljúffengar veitingar, óvenjuleg borgun

VöflurEftir skemmtilega skoðunarferð um verksmiðjuna og sögusafnið í Djúpavík bauð Eva okkur í gómsætar kræsingar á hótelinu.

Það var svakalega gaman að skoða hótelið, því þar er svo mikið af forvitnilegum hlutum.

Vöfflurnar og kakóið runnu ljúflega niður, þótt okkur þætti dálítið skrýtið að borða þær með smjöri og osti, eins og Eva kenndi okkur.

Þegar við ætluðum að borga fyrir okkur úr ferðasjóðnum sagði Eva hótelstýra að það eina sem við þyrftum að borga væri loforð um að koma aftur í heimsókn á næsta ári!

Það er sko loforð sem við hlökkum til að standa við! 

 


Kaggi skáldsins

Bíll skáldsinsÞað eru margir dýrgripir, stórir og smáir, í Djúpavík. Hér eru Ásta og Júlíana sestar upp í sannkallaða eðalkerru sem Ási sýndi okkur.

Þetta er Buick, árgerð 1954, sem Halldór Kiljan Laxness átti.

Hver var Halldór Kiljan Laxness? "Hann var skáld," segir Ásta. Og Júlíana bætir við: "Það er fullt af bókunum hans til heima."

Júlíana reiknar út að þessi flotti Buick sé 54 ára, og að nú séu 106 ár frá fæðingu skáldsins mikla.

Hérna er hægt að lesa meira um Halldór Kiljan Laxness. 

 


Risaverksmiðjan í Djúpavík

Ásta í DjúpavíkSíldarverksmiðjan í Djúpavík var stærsta steinsteypta bygging á Íslandi,  en þar hófst framleiðsla á mjöl og lýsi árið 1934.

Ásbjörn í Djúpavík sagði okkur sögu síldarverksmiðjunnar. Hann er mjög skemmtilegur sögumaður en með því að smella hérna er hægt að lesa margt fróðlegt á heimasíðu hótelsins í Djúpavík.

Ásta og Júlíana eru sammála um að það væri mjög gaman ef hægt væri að byrja síldarvinnslu aftur í Djúpavík.

En það er eitt vandamál, segir Júlíana.

Síldin fór.

 

Hérna má lesa meira um síld! 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband