Færsluflokkur: Bloggar
Í vikunni fórum við í skemmtilegt skólaferðalag til Djúpavíkur. Á leiðinni stoppuðum við á Gjögri í sannkölluðu sumarveðri.
Þar lærðum við meðal annars nöfnin á fjöllunum í Veiðileysu og Reykjarfirði, en þau eru mjög tignarleg.
Hér sjást Byrgisvíkurfjall (með y) og Miðdegisfjall með Skarfadal á milli sín.
Já, fjöllin í Árneshreppi eru sannarlega hvert öðru fallegra!
Bloggar | 16.5.2008 | 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óvenjulegur innbrotsþjófur var á ferðinni í kaupfélaginu í Norðurfirði á sjálfan hvítasunnudag.
Júlíana, sem býr í kaupfélagshúsinu, segir að mamma hennar hafi orðið þjófsins vör þegar hún var að ná í krukku af rauðkáli.
"Mömmu brá í brún, þegar hún heyrði vængjaþyt í búðinni," segir Júlíana. Gunnsteinn var kallaður til, svo hægt væri að opna stóru hurðina á lagernum en þá var hinn óboðni gestur floginn út um glugga.
Þarna var maríuerla á ferðinni, en þessi skemmtilegi smáfugl er þekktur fyrir að gera sér hreiður í mannabústöðum. Á þessari síðu hérna má lesa sitthvað fróðlegt um maríuerluna.
Þar kemur meðal annars fram að maríuerlan hefur vetursetu í sólinni í Afríku og að á Íslandi verpa hvorki fleiri né færri en 100 þúsund pör.
"Þær geta ráðið við haförninn, ef allar maríuerlur standa saman," eins og Ásta bendir á.
Bloggar | 13.5.2008 | 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Það má ekki benda á Skyrkollustein, það angrar álfana," sagði Ásta ákveðin þegar við skoðuðum þennan fræga álfabústað í landi Stóru-Ávíkur.
Ásta sagði að sá sem benti á Skyrkollustein myndi skera sig í fingurinn áður en langt um liði. Og það var líka stranglega bannað, sagði Ásta, að príla upp á steininn. "Myndir þú vilja að einhver væri að klifra uppi á þakinu heima hjá þér?" spurði hún.
Júlíana var ekki alveg jafn viss, en báðar voru þær sammála um að Skyrkollusteinn er sérlega fallegur álfabústaður. Júlíana fann meira að segja dyrnar og prófaði að banka. Kannski voru álfarnir ekki heima í góða veðrinu.
Bloggar | 13.5.2008 | 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það eru fleiri en farfuglarnir sem koma svífandi í Árneshrepp þessa dagana. Á föstudaginn bættist kettlingurinn Kúrt í hóp íbúa, og hann hefur eignast heimili hjá Bernharð og Óskari.
Kúrt er 8 vikna lífsglaður lítill kisi sem finnst mjög ævintýralegt að vera kominn í sveitina.
Óskar, sem er 1 árs, og hinn 4 ára gamli Bernharð eru ekki alveg búnir að ákveða hvað þeim finnst um Kúrt, enda á hann til að stelast í matinn þeirra og er auk þess alltaf að reyna að fá þá til að leika við sig.
Bloggar | 13.5.2008 | 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Hann er flottari en nokkur annar steinn," segir Ásta um Grænlandssteininn í Stóru-Ávík. Og Júlíana tekur í sama streng: "Hann er eins og kristall."
Við fórum í rannsóknarferð í Stóru-Ávík í gær, enda er þar margt að skoða.
Grænlandssteinninn er sannarlega einstakur. Talið er að hann hafi borist til Íslands með borgarísjaka fyrir 10 þúsund árum.
Nú liggur hann í móanum og glitrar í sólskininu.
Okkur finnst merkilegt að Grænlandssteinninn er eldri en öll fjöllin í Árneshreppi, eldri en Ísland.
Landið okkar er 15 milljón ára gamalt en Grænlandssteinninn er miklu, miklu eldri.
Bloggar | 8.5.2008 | 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Krían er komin í Trékyllisvík! Og þá veit ég að vorið er komið, segir Ásta.
Krían er ótrúlega stundvís fugl. Hún kemur alltaf 8. maí. Og það brást ekki núna frekar en venjulega.
Ásta, sem þekkir kríuna mjög vel, segir að krían sé skemmtilegur fugl. Og hún flýgur svo fallega.
Krían passar hreiðrið sitt mjög vel, og er óvægin við þá sem koma nálægt. Krían er sannkallaður varðfugl og passar til dæmis æðarvarpið í Árnesey.
Krían er mikill afreksfugl. Hún er komin hingað, alla leið frá Suðurskautslandinu. Á þessari síðu má lesa um kríuna, og þar stendur meðal annars:
Á farfluginu fljúga þær á 4560 km hraða á klukkustund í 67 tíma daglega og fara þannig um 300 km á hverjum degi. Allt ferðalagið aðra leiðina tekur því um einn og hálfan mánuð, hreint ótrúlegt afrek fyrir fugl sem ekki vegur nema rúm 100 g.
Bloggar | 8.5.2008 | 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Ég vil helst tala við börn. Um þau má þó gera sér þær vonir, að þau geti orðið vitsmunaverur. En þeir fullorðnu -- almáttugur minn!"
Sören Kierkegaard (1813-1855) danskur heimspekingur.
Júlíana valdi spakmæli vikunnar, úr bókinni Vel mælt, sem Sigurbjörn Einarsson biskup tók saman.
Bloggar | 6.5.2008 | 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag fengum við aldeilis góðan gest í skólann. Hrafnhildur Kría kom með Hrefnu ömmu sinni í skólann og þær brugðu á leik með hnattlíkanið.
Kría, sem er þriggja og hálfs árs, er mjög skemmtileg og dugleg að leika sér.
Við höfum einmitt verið að bíða eftir kríunni hingað í Árneshrepp, og er von á henni 8. maí.
Bloggar | 6.5.2008 | 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Júlíana er að undirbúa sig fyrir próf í landafræði, og hefur þess vegna rannsakað kort af Íslandi mjög vandlega. Hún hefur komist að óvæntri niðurstöðu:
Ísland lítur út eins og kind.
"Vestfjarðakjálkinn er hausinn, Langanes dindillinn. Jöklarnir er hvítir flekkir í ullinni."
Fleiri niðurstöður um Ísland? "Já, Ísland er frábært land. Ég vil ekki búa annarsstaðar!"
Og eitt enn: "Ísland er 15 milljón ára. Mér finnst það mjög gamalt, en í heimsfræðilegu tímatali er það mjög ungt," segir Júlíana.
Bloggar | 6.5.2008 | 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sauðburðurinn er rétt að hefjast í Árneshreppi og þá verður nú líf í tuskunum í fjárhúsunum. Allan sólarhringinn.
Bær hefur tekið afgerandi forystu, þar hafa sex kindur þegar borið, og alls hafa 20 lömb litið dagsins ljós í hreppnum. Þetta og fleira forvitnilegt kom í ljós í rannsókn sem Júlíana gerði nú í morgun.
Á Kjörvogi bar ein kind strax 17. apríl, tveimur lömbum sem heilsast vel. Fyrstu lömbin í hreppnum fæddust hinsvegar á Finnbogastöðum í lok mars, en fleiri hafa ekki bæst við ennþá.
Fjórar kindur hafa borið á Steinstúni en þar drapst lamb hjá einlembu. Hún var þá látin ættleiða Klett litla, sem við sögðum frá í síðustu viku.
Enn hafa engar kindur borið í Litlu-Ávík, Árnesi, Melum og Krossnesi.
Um og upp úr næstu helgi fer hinsvegar allt á fulla ferð. Þangað til verður mikið bakað í Árneshreppi, svo ekki vanti veitingar meðan skemmtilegasta tímabil ársins stendur yfir!
Bloggar | 5.5.2008 | 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Júlí 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Bloggvinir
Tenglar
Tvist og bast í netheimum
- Númi Fjalar Númi Fjalar á myspace / aðeins fyrir útvalda ;D
- Gummi á Melum Guðmundur Björnsson
- Bæjarins besta Vestfirskar fréttir
- HSS Héraðssamband Strandamanna
- Galdrar Galdrasýning á Ströndum
- Kindur Sauðfjársetur á Ströndum
- Molar um Árneshrepp Árneshreppur í Wikipediu
- Félag Árneshreppsbúa Skemmtileg og stórfróðleg
- Veiðileysuætt Ættartal frá merkum bæ í Árneshreppi
- Djúpavík Flottasta hótel í heimi!
- Litli-Hjalli Jón Guðbjörn í Litlu-Ávík með ferskar fréttir
- Strandir Fréttir af Ströndum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 1
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 3368
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar