Færsluflokkur: Bloggar

Góðir gestir og ótrúlega mikill snjór!

Jæja við erum komnar heim aftur eftir frábært skólaferðalag! (Við segjum ykkur bráðum meira frá því). Það hefur verið nóg að gera hjá okkur síðustu daga. Það var ótrúlega skemmtilegt þorrablót á sunnudaginn og svo höfum við fengið alveg frábæra gesti í skólann okkar. Mikla strandakrakka sem gaman er að fá í heimsókn.

Guðrún Harpa leikur listilega fyrir JúlíönuGuðrún Harpa sem er sko hreinræktuð strandastelpa í allar ættir og Kári sem er auðvitað eins mikill strandastrákur og hægt er að vera.

Guðrún Harpa og Júlíana eru að vinna að ævintýri þar sem  hetjan er stelpa, (eins og svo oft í raunveruleikanum) og fáum við vonandi að sjá það hér á síðunni okkar þegar það er tilbúið.

Ásta og Kári eru í miklum snjóhúsaframkvæmdum. Reyndar eru Harpa og Júlíana líka með í því. Það er verið að gera eitt stærsta og flottasta snjóhús sem sést hefur lengi í risaskaflinum fyrir utan skólastjóraíbúðina. Ef tekst að gera það nógu stórt verður kannski hægt að nota það sem kennslustofu! Þá þurfum við bara að fá Hrefnu til að gefa okkur heitt kakó svo heilinn frjósi ekki alveg.

 En Kári og Ásta eru kominn með góða hugmynd að sögu sem gerist í snjóhúsi.Það kæmi ísbjör semásta og kári væri rosalega góður og yrði vinur okkar, nei! það væri betra ef hann væri vondur því þá yrði sagan miklu meira spennandi. Meira um það síðar!


Bless á meðan!

VestmannaeyjarVið erum sannarlega í sumarskapi í Finnbogastaðaskóla í dag, enda hellir sólin geislum sína yfir Trékyllisvík.

Og það sem meira er: Nú erum við að undirbúa skólaferðalag -- alla leið til Vestmannaeyja!

Vestmannaeyjar eru langt í burtu en við vissum að þar varð eldgos fyrir 35 árum. Við höfum líka komist að því að alls eru eyjarnar 15 og að sú stærsta (þar sem við verðum) heitir Heimaey.

Í Vestmannaeyjum búa mjög margir, miklu fleiri en við héldum. Ásta giskaði á að íbúar væru 145 og Júlíana taldi að íbúar væru aðeins fleiri, eða 269. Staðreyndin er sú að íbúar Vestmannaeyja eru hvorki fleiri né færri en 4.040.

Við leggjum af stað á mánudaginn og erum orðnar mjööööög spenntar. Ásta ætlar að byrja að pakka strax á morgun, föstudag, en Júlíana ætlar að bíða þangað til á sunnudaginn.

Eitt er víst: Þetta verður skemmtilegt og við segjum ykkur ferðasöguna þegar við komum heim aftur.

Bless á meðan! 

 


Björgum bangsa

Knútur krúttVið í Finnbogastaðaskóla höfum áhyggjur af ísbirninum, því við heyrðum í fréttunum að Norðurpóllinn bráðnar hratt og þar með heimkynni bangsa.

Við erum núna að rannsaka ísbirni og höfum komist að því, að í heiminum eru aðeins til 20 til 25 þúsund ísbirnir, næstum því jafn margir og íbúar í Kópavogi.

Ísbirnir lifa á Grænlandi, Alaska, Síberíu, Svalbarða og Kanada. Þeir lifa aðallega á sel, sem þeir veiða á ísnum. En nú er ísinn að bráðna og þar með er miklu erfiðara fyrir ísbjörninn að komast af.

Okkur datt í hug að kannski væri hægt að búa til athvarf fyrir ísbirni á Suðurpólnum. Þar er nægur ís og líklega myndu þeir byrja á því að fá sér mörgæsarsteik!


Sungið og trallað

Sungið og trallaðÞað var sungið og trallað í Finnbogastaðaskóla þegar séra Sigríður Óladóttir og Gunnlaugur prestakall komu í heimsókn til okkar.

Ásta og Júlíana fengu langþráð tækifæri til að spila á blokkflautu, Ástrós gestanemandi söng á dönsku og prestshjónin léku á gítarinn. Við sungum mörg lög og áttum góða stund, enda finnst okkur prestshjónin mjög skemmtileg. 

Júlíana Lind notaði tækifærið og spurði séra Sigríði hvort Jesú hefði átt bræður eða systur, og komst að því að hann átti mörg systkini. "Þau gátu hinsvegar ekki gengið á vatni, sem var frekar fúlt fyrir þau," sagði Júlíana.

Á ljósmyndinni, frá vinstri: Badda, Ástrós, Júlíana, Ásta, séra Sigríður og Gulli prestakall.


Vísa vikunnar

Tónlist er góðEftir Júlíönu Lind.

Tónlist er góð,

hún gefur mér blóð.

Stundum verð ég óð,

því tónlistin er góð. 

 

 


Skemmtileg heimsókn

Ásta, Ástrós og bleiku neglurnarÍ síðustu viku var Ástrós Lilja í heimsókn í skólanum okkar. Ástrós er í 2. bekk eins og Ásta og okkur fannst mjög gaman að hafa hana hjá okkur, því það er alltaf gott þegar fleiri krakkar eru í skólanum.

Á myndinni eru Ásta og Ástrós að spila og sýna í leiðinni fagurbleikar neglur.

Takk fyrir komuna, Ástrós! Sjáumst seinna.


49. íbúinn fæddur í Árneshreppi!

Með Guggu í fjárhúsunumNú getum við sagt ykkur stórtíðindi, því miðvikudaginn 13. febrúar fæddist nýr íbúi Árneshrepps! Þá eignuðust Gunnar og Pálína í Bæ litla stúlku og þar með hefur Aníta prinsessa fengið systur. Þar með íbúarnir í Árneshreppi orðnir 49.

Af þessu tilefni heimsóttum við stolta ömmu, Guggu í Bæ. Hún var í fjárhúsunum að gefa, þegar okkur bar að garði. Litla stelpan er ekki komin heim í sveitina sína, en við hlökkum mikið til að sjá hana. Af þessu skemmtilega tilefni tókum við viðtal við Guggu í fjárhúsunum.

Ásta: Hvað áttu mörg börn og barnabörn?

Gugga: Ég á fjögur börn og eitt stjúpbarn, og fimm barnabörn og eitt stjúpbarnabarn. Og reiknaðu nú!

Ásta: Veistu hvað litla stelpan á að heita?

Gugga: Nei, ég hef ekki hugmynd um það!

Júlíana: Hvað var hún þung?

Gugga: 3325 grömm.

Júlíana: En hvað var hún löng?

Gugga: 51 sentimetri.

Júlíana: Klukkan hvað fæddist hún?

Gugga: Hún kom í heiminn klukkan 11:19.

Júlíana: Hvernig er hárið á litinn?

Gugga: Dökkt.

Júlíana: En augun?

Gugga: Blá, einsog hjá öllum í fjölskyldunni. 

 

 


Öskudagur - glens og gaman!

indíáni og sjóræningiÖskudagurinn var frábær! Við klæddum okkur allar upp eftir hádegismatinn í allskonar gervi. Júlíana og Ásta umbreyttust í glæsilegan sjóræningja og alvöru indíána.  Hrefna varð að fögru graskeri, Badda að freknóttum gíraffa með varalit og Elín að snjóhvítum ísbirni með fínt svart trýni.

 Við fórum á Finnbogastaði og sungum fyrir Munda í fjárhúsunum, rollurnar og tíkurnar, Kolla og Tíra fylgdust líka með af athygli.

Ferðin lá svo upp í  Bæ til Guggu góðu. Júlíönu tókst með klækjum að krækja á hana öskupoka og það þyngdist vel í nammipyngjunni.

"Það er ótrúlega spennandi að reyna að festa öskupoka á fólk án þess að það taki eftir því" sagði Júlíana á eftir.

Við heimsóttum svo Valgeir sem var í skúrnum að vinna og sungum og sungum. Hann bað um aukalag og ætlaði svo að gefa okkur fuglafóður eftir alla söngskemmtunina. En hann var auðvitað að grínast og bætti í nammipyngjuna.

"Valgeir er svo fyndinn og mikill grallari! annars væri hann ekki frændi minn" segir Ásta heimspekilega.

Leiðin lá svo í Norðurfjörð þar sem kaupfélagið var opnað fyrir okkurkarakterar í kaupfélaginu sérstaklega. Við urðum heldur betur hissa þegar við komum þangað inn. Þar beið okkar hópur af skrautlegum karakterum. Við fórum allar að skellihlæja, þó sérstaklega að Maddý. Hún var svo fyndin með hárkolluna, í pels og kafmáluð. Meira að segja Lappi þekkti hana ekki þegar hún kom í kaupfélagið og gelti að henni.

Þar sungum við fyrir alla viðstadda og fengum síðan fullt af nammi og ís. Þau þökkuðu líka vel fyrir sig með því að syngja fyrir okkur Gamla Nóa. 

 Kötturinn sleginn!

 Næst lá leiðin í skólann aftur þar sem Hrefna tók á móti okkur appelsínugul og búin að gera kassann með köttinn tilbúinn. Við slógum hann svo úr af miklu afli og fengum popp og gos og fórum svo í skemmtilega leiki.

 

 

 

Kærar þakkir til allra fyrir að gera daginn okkar svona skemmtilegan!

 


Smiðurinn kemur fótgangandi yfir Trékyllisheiði

Björn bóndi að gera brennuna tilbúna  Það eru rosalega spennandi hlutir að gerast í verbúðinni. Júlíana hefur verið fréttaritari skólans í Norðurfirði síðustu daga.

"Ingólfur, pabbi (Guðlaugur), Hrafn, Björn og Gunnsteinn hafa verið að rífa veggina í verbúðinni þannig að nú er þar stór salur.

Þar á að koma kaffihús sem við köllum kaffi Norðurfjörður þó við vitum ekki alveg endanlegt nafn ennþá." 

Júlíana er mjög glöð með kaffihúsið "bæði af því að þá verða til fleiri störf í sveitinni og líka verður gaman að fá að hjálpa til og hitta alla ferðamennina og gestina"

Júlíana og áramótabrennan!"Ég fylgdist með þegar allt spýtnabrakið úr verbúðinni var brennt á risastórri brennu.  Það komu margir úr Norðurfirði að fylgjast með  enda var engin brenna hér á áramótunum útaf roki, svo við kölluðum þetta bara áramótabrennu."

Palli smiður er nú kominn í sveitina til að byrja að smíða inn í stóra salinn. Hann þurfti að ganga síðasta spölinn yfir Trékyllisheiði, en það er önnur saga.


Snjóhús / snowhouse

Nú er ískalt og fallegt í sveitinni okkar. Við náðum okkur í risastóra skóflu og grófum inn í stærsta skaflinn. Þá varð til flott snjóhús sem við komumst báðar inn í og gátum kútvelst í.  Við fáum fínar eplakinnar og viljum helst ekki koma inn í tíma aftur.

Júlíana er einmitt að læra vetraorð í ensku.  Á ensku segir maður:We made a snowhouse!

 

" We made two snowhouses.  Winter is beautiful and little bit cold. I love winter!" segir Júlíana enskuséní.

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband