Færsluflokkur: Bloggar
Við vorum með þæfingarnámskeið í skólanum okkar í gær. Það var skemmtilegt að vera allar saman, Badda, Hrefna, Elín, Júlíana og Ásta og svo kom líka sérstakur gestur til okkar, hún Maddý í Norðurfirði.
Okkur fannst mjög gaman að þæfa og bjuggum til bolta, blóm og myndir. Við lærðum að þegar maður þæfir má maður ekki vera harðhentur heldur mjúkhentur. Það þarf að nudda vel og setja nóg af sápu á ullina. En svo þarf líka að passa að skola hana vel úr þegar maður er búinn. Maddý stóð sig mjög vel í sínum fyrsta þæfingartíma. Hún bjó til glæsilega húfu en okkur fannst svolítið fyndið þegar hún var að þæfa hana á boltanum, því það var eiginlega eins og hún væri að þvo einhverjum um hárið.
Við vorum mjög ánægðar með það sem við bjuggum til. Þið sjáið afraksturinn á myndinni.
Það var líka frábært að vita næstum jafn mikið og kennararnir. Við vorum eiginlega að læra þetta allar saman.
Bloggar | 31.1.2008 | 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ásta er eldsnögg að læra ljóð og kvæði, og hún kann margar skemmtilegar vísur. Nýjasta kvæðið er um kisuna sem fór alla leið til London að veiða mýs.
"London er höfuðborgin í Stóra-Bretlandi," útskýrir Ásta, sem er líka orðin glúrin í landafræði. Hér er kvæðið Kisa mín ásamt ljósmynd af Bernharð og Ástu:
Kisa mín, kisa mín,
hvaðan ber þig að?
-- Og ég kem nú frá London,
þeim mikla og fræga stað.
Kisa mín, kisa mín,
hvað gerðirðu þar?
-- Og ég var að veiða mýsnar
í höllu drottningar.
Bloggar | 28.1.2008 | 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú er runnin upp kisuvika hjá okkur. Við ætlum að segja sögur af kisum og birta ljóð og kvæði um þessi skemmtilegu dýr. Ásta samdi þessa sögu sem heitir Hundur og köttur:
Það voru einu sinni hundur og köttur. Þeir voru vinir og léku sér saman, en stundum klóruðu þeir hvor annan.
Einu sinni, þegar þeir voru að leika sér, rúlluðu þeir niður í fjöru og duttu ofan í gljúfur.
Kötturinn kunni að klifra og hann prílaði með hundinn upp. En þá tók ekki betra við: Þeir voru fastir á eyðieyju!
Hundurinn kunni að synda og hann svamlaði með kisa aftur upp á land!
Svona unnu hundurinn og kötturinn vel saman.
Myndin er af Ástu og Óskari að leika sér á þessum fallega mánudegi í Trékyllisvík.
Bloggar | 28.1.2008 | 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bros hamingjusamrar móður við saklausu barni er endurskin frá ásjónu Guðs, blik frá ríki himnanna.
Þetta finnst okkur báðum mjög fallega sagt, og það var sjálft ævintýraskáldið H.C. Andersen sem skrifaði þessi orð. Við höldum einmitt mikið upp á Andersen. Júlíana valdi spakmæli vikunnar að þessu sinni, en Ásta fékk að velja þessa fínu mynd af danska skáldinu með pípuhattinn!
Bloggar | 23.1.2008 | 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á mánudaginn fórum við í heimsókn á flugvöllinn á Gjögri til að kynna okkur starfsemina þar. Sveindís á Kjörvogi er flugvallarstjóri og hún tók vel á móti okkur.
Flugfélagið Ernir flýgur tvisvar í viku (á mánudögum og fimmtudögum) með farþega, póst og vörur fyrir kaupfélagið í Norðurfirði.
Sveindís flugvallarstjóri leyfði okkur að fylgjast með þegar hún talaði við flugstjórann í talstöð, áður en hann lenti vélinni í einstaklega fallegu veðri. Við spjölluðum líka við flugstjórann og fengum mjólk og kökur hjá Sveindísi þegar flugvélin var farin.
Þetta var mjög skemmtileg og fróðleg ferð og hérna eru nokkrar af spurningunum sem við lögðum fyrir Sveindísi flugvallarstjóra.
Ásta: Hvenær byrjaðir þú að vinna á flugvellinum?
Sveindís: Árið 1999.
Ásta: Hvað hét flugvallarstjórinn á undan þér?
Sveindís: Jón Guðbjörn Guðjónsson.Júlíana: Hvað þarftu að gera áður en flugvélin kemur?
Sveindís: Skoða flugvöllinn, segja hvernig veðrið er.
Ásta: Hvernig talið þið saman?
Sveindís: Í talstöð.
Ásta: Hvernig veistu hvar flugvélin er?
Sveindís: Ég spyr.
Ásta: Hvernig veit flugstjórinn hvar flugvöllurinn er í myrkri?
Sveindís: Við erum með ljós hérna úti.
Ásta: Hvað gerirðu ef flugvélin brotlendir?
Sveindís: Ég hringi í 112.
Júlíana: Vinnur þú ein á flugvellinum?
Sveindís: Hávarður vinnur líka stundum.
Júlíana: Hvenær fluttir í sveitina?
Sveindís: Ég hef alltaf átt heima hér.
Við stelpurnar erum núna að kynna okkur öll störf sem unnin eru í sveitinni okkar og á næstunni verða viðtöl við fleiri sveitunga okkar!
Bloggar | 23.1.2008 | 11:52 (breytt 26.1.2008 kl. 19:32) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vaxa blóm um vetur? Já, svo virðist vera. Frostið og snjórinn búa í sameiningu til allsskonar falleg blóm og meira að segja laufblöð úr klaka.
Þegar við förum út í frímínútur finnum við oft mjög falleg sköpunarverk frostsins. Í garðinum er breiða af snærósum, eins og þessi sem við höldum á.
Ásta segir að snædrottning eigi heima hér í Trékyllisvík og að þetta séu blómin hennar. Júlíana er hjartanlega sammála:
"Já, við höfum meira að segja séð spor snædrottningarinnar!"
Bloggar | 23.1.2008 | 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú er vetur konungur í fullu fjöri. Allt fullt af snjó, ískalt og bjart.
Það er margt skemmtilegt sem hægt er að gera á veturna. Ásta og Júlíana eru sammála um að það sé frábært að leika sér í snjónum, t.d. að búa til snjókarla og snjókerlingar, snjóhús og göng og auðvitað að renna sér. Svo er líka svakalega gaman að fá að fara með á snjósleða og bruna um sveitina.
Það er líka mjög gaman á veturna því þá eru klúbbarnir aðra hvora helgi. Þá hittast eiginlega allir í sveitinni í heimahúsum, konurnar sauma og prjóna og karlarnir spila á spil. Samt mega allir gera það sem þeir vilja, að sjálfsögðu. Karlarnir geta saumað!! Og konurnar spilað.
Okkur finnst mjög gaman þegar klúbbarnir eru, þá förum við í sparifötin og svo eru alltaf fullt af gómsætum kökum. Fyrsti klúbbur vetrarins var á Melum hjá Böddu og Birni í byrjun janúar. Þá voru unglingarnir heima, sætu heimasæturnar á Melum og stóru strákarnir í Árnesi II.
Næsti klúbbur verður heima hjá Júlíönu á morgun sem henni finnst mjög spennandi.
" Það verður gaman að fá svona marga í heimsókn! Svo er líka gott að hann verður heima hjá mér því þá veit ég hvar allt er"
Bloggar | 18.1.2008 | 18:03 (breytt kl. 18:03) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um helgina var haldið skákmót í félagsheimilinu og við tókum að sjálfsögðu þátt í því, enda gaman að tefla! Keppendur voru 16 og svo voru auðvitað áhorfendur líka.
Tveir strákar úr grunnskólanum á Hólmavík voru með. Þeir heita Símon og Einar og það var skemmtilegt að fá þá í heimsókn.
Úrslitin eru auðvitað aukaatriði, en í efstu sætum voru Kitti á Melum, Ingólfur í Árnesi og Hrafn. Við stelpurnar stóðum okkur vel og fengum sérstök verðlaun: Óskabox frá Indlandi!
Óskaboxið er þannig að maður skrifar óskina sína á miða og setur í boxið, og svo er aldrei að vita nema óskin rætist!
Bloggar | 8.1.2008 | 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í dag var fyrsti skóladagur eftir jólafrí og við fórum yfir hvað okkur fannst skemmtilegast við jólin og spjölluðum um hvað er gott við að komið sé nýtt ár.
Ástu fannst eiginlega skemmtilegast að opna pakkana en líka að fá góðan jólamat og sofa út. Uppáhalds jólagjöfin var spiladósin frá pabba og mömmu og hún var líka mjög ánægð að fá bókina eftir Þórarin Eldjárn, Grannmeti og átvextir
Um áramótin er allt skemmtilegt og fallegt að horfa á brennuna en flugelda terturnar eru langmest spennandi sagði Ásta en Júlíana er hrifnust af stjörnuljósum því þau er svo falleg og hugguleg.
Júlíana sagði að ferða dvd spilarann sem hún fékk væri uppáhaldsgjöfin sín. Hún fékk líka Tinnabók sem hún og pabbi eru að lesa saman sem er frábær, eins og allar Tinna bækurnar.
Ásta og Júlíana sögðu báðar að það væri gott að byrja aftur í skólanum þó það hafi verið svolítið erfitt að vakna í morgun, því Það er svo gott að nota heilann aftur!
Það er líka margt gott við að komið er nýtt ár, í mars verðum við ári eldri, svo kemur sumarið og þá er svo margt skemmtilegt að gera eins og sauðburður og að leika sér. Samt er líka margt mjög skemmtilegt á veturna, þó við vildum alveg fá meiri snjó til að leika okkur í.
Áramótin þýða að tíminn er ekki stopp, sem betur fer sagði Júlíana að lokum.
Bloggar | 4.1.2008 | 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.
Júlíana valdi orð vikunnar að þessu sinni, og það er viðeigandi að þau skuli hafa komið frá Jesú enda nýliðin jól fæðingarhátíð hans. Jesús talaði oft um börnin og skammaði lærisveinana, þegar þeir ætluðu að banna börnunum að koma til hans.
Bloggar | 4.1.2008 | 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sept. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | |
7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 |
14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 |
21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 |
28 | 29 | 30 |
Bloggvinir
Tenglar
Tvist og bast í netheimum
- Númi Fjalar Númi Fjalar á myspace / aðeins fyrir útvalda ;D
- Gummi á Melum Guðmundur Björnsson
- Bæjarins besta Vestfirskar fréttir
- HSS Héraðssamband Strandamanna
- Galdrar Galdrasýning á Ströndum
- Kindur Sauðfjársetur á Ströndum
- Molar um Árneshrepp Árneshreppur í Wikipediu
- Félag Árneshreppsbúa Skemmtileg og stórfróðleg
- Veiðileysuætt Ættartal frá merkum bæ í Árneshreppi
- Djúpavík Flottasta hótel í heimi!
- Litli-Hjalli Jón Guðbjörn í Litlu-Ávík með ferskar fréttir
- Strandir Fréttir af Ströndum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.9.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 3428
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar