Færsluflokkur: Bloggar

Gleðilegt ár!

100_2649Gleðilegt ár kæru lesendur, vinir og fjölskylda!

Það var mjög gaman á litlu jólunum hjá okkur. Við borðuðum saman jólahangikjöt í skólanum og skiptumst svo á pökkum.

Við buðum svo fjölskyldum okkar í kaffi og súkkulaði. Við höfðum æft stórkostlega skemmtidagskrá fyrir þau.

100_2634Ellen og Árný frá Melum hjálpuðu okkur í tónlistaratriðunum enda eru þær landsfrægir snillingar á sviði söngs og gítarleiks

100_2644Að lokum dönsuðum við öll saman í kringum jólatréð sem var rosalega gaman og hátíðlegt.

Gleðilegt ár öll sömul og takk fyrir öll skrif ykkar í gestabókina. Það er svo gaman að geta verið í sambandi við ykkur.

Sjáumst svo á nýju ári þar sem við munum halda áfram að bjóða upp á fróðleiksgullmola og sjóðandi heitar fréttir frá nafla alheimsins, Árneshreppi á Ströndum!


Spakmæli vikunnar

SnillingarAllir eru snillingar fram að tíu ára aldri!

Við vorum ekki alveg sammála um spakmæli vikunnar núna, en Ásta fékk að velja. Júlíönu fannst spakmælið gott, en að höfundurinn, sem hét Aldous Huxley, hefði frekar átt að miða við 11 eða 12 ár.

En við getur sannarlega verið sammála um að ÖLL börn eru snillingar!

Myndin er af ísbjarnarhúnum sem eru greinilega ALGJÖRIR snillingar, enda er ísbjörninn víst ein gáfaðasta dýrategund í heiminum.


Stekkjastaur leysir frá skjóðunni!

stekkjastaur_01

 Loksins! Loksins! Jólasveinarnir eru komnir til byggða hjá okkur í Trékyllisvík eins og annars staðar.

Núna hlökkum við til að fara að sofa á kvöldin.

Við skrifuðum upp spurningar til þeirra sem við settum út í glugga í gær. Ásta bað Stekkjastaur að koma sínum spurningum til Kertasníkis en Júlíana spurði Stekkjastaur spjörunum úr.

Hann leysti frá skjóðunni og sagði okkur svolítið frá sjálfum sér.  Hér koma spurningar Júlíönu og svörin sem voru skrifuð af Stekkjastaur á blaðið sem var út í glugga.  Við erum rosalega glaðar að hann skyldi svara okkur en grunar að hann hafi ekki æft sig mikið í skrift.

 Júlíana: Hvernig getur þú sett gjafirnar í skóinn í gegnum gler?

Stekkjastaur: Má ekki segja

 Júlíana: Hvað ertu gamall?

 Stekkjastaur: Ég held 387 ára

Júlíana: Hvað gerir þú á sumrin?

Stekkjastaur: Hrekki bræður mína

Júlíana: Hvernig búið þið til gjafirnar?

Stekkjastaur:  Bara með lími, nál og tvinna

Júlíana: Hvernig í ósköpunum kemstu til allra barnanna á einni nóttu?

Stekkjastaur: Töfrar!

 


Óskar á músaveiðum

Óskar veiðikötturSíðustu daga höfum við séð spor eftir mýs í snjónum við skólann okkar, enda vilja þær örugglega komast í matinn í eldhúsinu. En Óskar ætlar ekki að hleypa þeim inn í skólann!

Núna í vikunni klófesti Óskar mús sem ætlaði að laumast í matarbirgðirnar. Óskar kom sigri hrósandi með músina til Elínar skólastjóra og var greinilega stoltur af frammistöðu sinni.

Bernharð hefur ekki ennþá farið á músaveiðar, enda finnst honum skemmtilegast að kúra í sófanum.


Klifurköttur í Trékyllisvík

Bjarki klifurkötturTöffararnir hjá Orkubúi Vestfjarða hafa verið í heimsókn í Árneshreppi að laga rafmagnið (sem fer ansi oft) og skipta um perur í ljósastaurunum.

Hérna sést hann Bjarki, sem klifraði upp ljósastaurinn við Finnbogastaðaskóla, einsog ekkert væri! Okkur þætti gaman að geta prílað svona, en Bjarki notar sérstaka töfraskó til að komast á toppinn.

Bernharð og Óskar fylgdust mjög áhugasamir með og héldu greinilega að nýr risaköttur væri kominn í sveitina!


Grýla kallar á börnin sín

Grýla gamla

Er Grýla til? Júlíana trúir bara á tilvist Grýlu eftir 1. desember og Ásta segir að Grýla sé bara til um jólin. Hér er nóg pláss fyrir hana, til dæmis í Hlíðarhúsafjalli. Svo gæti hún líka búið í Þórðarhelli í Reykjaneshyrnu, því þar er nóg pláss fyrir Grýlu, Leppalúða og alla jólasveinana.

Af því Grýla er komin á kreik birtum við þulu og mynd, til heiðurs gömlu konunni! 

 

Grýla kallar á börnin sín

þegar hún fer að sjóða til jóla:

Komið þið hingað öll til mín,

Nípa, Típa,

Næja, Tæja,

Nútur, Kútur,

Láni, Sláni,

Leppur, Skreppur,

Loki, Poki,

Leppatuska, Langleggur og Leiðindaskjóða,

Völustakkur og Bóla.


Allir mættu í afmælið til Gunnsteins!

Gunnsteinn afmælisbarn og Aníta prinsessaÞað var nú aldeilis gaman í gærkvöldi. Þá komu allir í sveitinni í afmæli til Gunnsteins og Margrétar á Bergistanga í Norðurfirði.

Gunnsteinn var að halda upp á 75 ára afmælið sitt. Þarna var fullt af frábærum kökum og veitingum, við stelpurnar spiluðum núllu og gúrku við Guðfinnu og Pöllu, og lékum við Anítu prinsessu frá Bæ.

Þarna var glatt á hjalla, enda allir mættir frá Djúpavík, Kjörvogi, Litlu-Ávík, Finnbogastöðum, Bæ, Árnesi, Melum, Steinstúni, Norðurfirði og Krossnesi.

Á myndinni eru elsti og yngsti íbúinn í Árneshreppi: Gunnsteinn afmælisbarn og Aníta litla með gómsæta kleinu.

 


Hestakona og söngkona framtíðarinnar í viðtali við Morgunblaðið

Unnið að heimasíðu FinnbogastaðaskólaÁ laugardaginn verður viðtal við okkur í Barnablaði Morgunblaðsins, svo tryggið ykkur eintak! Blaðamaðurinn sendi okkur heilmargar spurningar um Finnbogastaðaskóla, okkur sjálfar, lífið í sveitinni og framtíðina.

Svo vorum við líka spurðar um bloggsíðuna okkar, því svo margir hafa komið í heimsókn þangað. Stundum er einsog litli skólinn okkar sé fullur af góðum gestum.

Í dag hafa til dæmis meira en 300 gestir komið á bloggsíðuna okkar. Verið þið innilega velkomin í heimsókn, öllsömul! 

Við viljum ekki ljóstra of miklu upp, en Júlíana segir í viðtalinu að hún vilji verða hestakona í framtíðinni. Hér í Árneshreppi vantar einmitt hesta, svo Júlíana sér ekkert því til fyrirstöðu að bæta úr því og búa áfram í bestu sveit á Íslandi.

Ásta er hinsvegar að hugsa um að verða söngkona, og er ekki alveg viss um að söngkona geti átt heima svona langt frá Reykjavík.

Við vorum líka spurðar um uppáhaldsdýrin okkar og vorum sammála um að þau væru: Hestar, kanínur, hundar, kindur.

Já, og gíraffar. Það vantar alveg gíraffa í Árneshrepp!


Englaverksmiðjan í Trékyllisvík

Ásta í englaverksmiðjunniNú er fjör í Finnbogastaðaskóla. Jólaföndrið stendur yfir og við erum með góða gesti í heimsókn. Í þeim hópi eru fjórar sem voru nemendur í skólanum: Gugga og Pálína í Bæ, Margrét á Bergistanga og Selma á Steinstúni.

Við erum að búa til engla, jólasveina og fleira fallegt. Englarnir eru í uppáhaldi hjá Ástu og Júlíönu, svo undurfagrir englar munu svífa um í Árneshreppi á næstunni.

Okkur þykir líka svo gaman að fá heimsókn í skólann okkar. Ekki sakar að jólaföndrinu fylgja gómsætar kökur og ljúffengt kakó.


Hver þekkir flest fjöll á myndinni?

TrékyllisvíkNú ætlum við að sýna ykkur Reykjarnes, Gjögur og Trékyllisvík, sem í gær skörtuðu sínu fegursta þegar Óskar og Bernharð komu svífandi einsog englar úr skýjunum.

Við erum að telja saman fjöllin -- hvað finnur þú mörg?

Þú getur stækkað myndina með því að smella á hana!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband