Færsluflokkur: Bloggar
Börn hugsa ekki um liðna tíð né ókomna tíð. Þau njóta andartaksins, það gerum vér fæstir.
Ásta og Júlíana voru sammála Jean de la Bruyére sem mælti þessi orð. Reyndar tók Júlíana fram að hún væri svolítið farin að hugsa um framtíðina -- það er að segja jólin. Annars segist Júlíana njóta augnabliksins, "af því maður verður ekki alltaf barn".
Ásta segir að langafi hennar hefði getað orðið 120 ára, jafnvel 130 ára. "En hann dó," segir Ásta.
Okkur finnst að bangsarnir njóti augnabliksins mjög vel!
Bloggar | 4.12.2007 | 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú getum við sagt stórfrétt úr Árneshreppi: Í gær fluttu hingað tveir frábærir, mjúkir og yndislegir högnar. Þeir heita Bernharð og Óskar, og áttu heima í Kattholti í Reykjavík.
Einsog duglegir lesendur okkar vita, þá voru aðeins fjórar læður í Árneshreppi: Branda í Litlu-Ávík, Písl á Finnbogastöðum, Ögn í Bæ og Gloría á Krossnesi.
Tíðindin af kisunum okkar hafa "slegið í gegn" hjá fjölmiðlum um allt land, einsog Júlíana orðaði það.
Bernharð og Óskar komu með flugi frá Reykjavík, og fannst ekkert sérstaklega spennandi að kúldrast í búri á fimmhundruð kílómetra hraða yfir Íslandi.
En nú eru þeir óðum að jafna sig í skólastjóraíbúðinni á Finnbogastöðum. Þeir hafa ekki enn fengið að fara út fyrir hússins dyr, en munu á næstu dögum tipla fyrstu skrefin í snjónum sem nú liggur yfir allri Trékyllisvík.
Læðurnar á Finnbogastöðum og Bæ eru næstu nágrannar Bernharðs og Óskars. Ásta segir að Ögn og Óskar verði vinir, og Písl og Bernharð líka. "Nema allir verði vinir," bætir hún við.
Bloggar | 4.12.2007 | 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Héðan í frá ætlum við að velja spakmæli vikunnar úr bókinni Vel mælt, sem Sigurbjörn Einarsson biskup tók saman. Það fyrsta er eftir Matthías Jochumsson skáld. Þetta finnst okkur mjög fallegt:
Því hvað er ástar og hróðrar dís
og hvað er engill úr Paradís
hjá góðri og göfugri móður?
Bloggar | 26.11.2007 | 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Júlíana er búin að skrifa upp ísbjarnarsögu, sem amma hennar á Steinstúni sagði henni. Ísbirnir hafa oft gengið á land í Árneshreppi og í vetur ætlum við að safna ísbjarnarsögum. Hér er fyrsta sagan, haldið ykkur fast!
Það var einu sinni maður sem hét Guðmundur. Hann átti heima í Drangavík í Árneshreppi.
Hann var á leið út í fjárhús og leiddi barn með annarri hendi og hélt á síldarfötu í hinni, og þegar hann horfði út á ísbreiðuna sá hann allt í einu ísbjörn koma hlaupandi að þeim. Guðmundur kastaði síldarfötunni frá sér og hljóp eins og fætur toguðu alla leið heim að bænum til að ná í byssuna sína til að drepa þetta ógurlega skrímsli.
Ísbjörninn fór beint að fötunni og byrjaði að éta síldina og við það tafðist hann þannig að Guðmundur og barnið sluppu inn í bæinn, sem var hlaðinn úr torfi og grjóti.
Svo fór Guðmundur út með byssuna, og stefndi ísbjörninn þá strax að honum. Guðmundur forðaði sér upp á þekju torfbæjarins, bjarndýrið elti hann strax þangað upp en Guðmundur náði að skjóta dýrið með eina skotinu sem hann hafði, en byssan var framhlaðningur.
Þannig björguðust bóndinn og barnið en Guðmundur og hans fjölskylda eignuðust mjög verðmætt skinn, sem var á þeim tímum á verðgildi á við sæmilegan bát.
Bloggar | 26.11.2007 | 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá er komið að fimmta og næstsíðasta keppandanum í fegurðarsamkeppni fjallanna í Trékyllisvík: Hlíðarhúsafjalli, sem skartar sjálfum Urðartindi.
Júlíönu finnst Hlíðarhúsafjall fallegast og Ástu finnst það fallegt líka.
Fjallið dregur nafn sitt af bæ, sem hét Hlíðarhús, en fór í eyði fyrir löngu. Sagt er að snjóflóð hafi fallið á bæinn.
Urðartindur á Hlíðarhúsafjalli teygir sig 473 metra til himins! Okkur langar að príla upp á Urðartind næsta sumar, þar er örugglega frábært útsýni.
Til að komast inn í Norðurfjörð þarf að keyra veginn sem er utan í snarbröttum hlíðunum, en Badda hefur sagt okkur að aldrei hafi orðið slys þar, eftir að Guðmundur biskup góði blessaði þær fyrir möööörghundruð árum!
Bloggar | 26.11.2007 | 11:24 (breytt kl. 11:25) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við viljum þakka fyrir allar skemmtilegu og góðu kveðjurnar sem við höfum fengið í gestabókina hérna á síðunni okkar. Og líka öllum sem heimsækja síðuna. Það er einsog skólinn verði miklu stærri, þegar við vitum af öllum þessum gestum hjá okkur!
Okkur þótti mjög gaman að sjá kveðjuna frá Vigdísi Grímsdóttur rithöfundi, því við erum nýbúnar að lesa æðislega bók eftir hana sem heitir Gauti vinur minn. Vigdís skrifaði:
Hæ stelpur, ég varð bara að senda ykkur línu af því að mér fannst svo gaman að lesa um skráningu hunda, katta og fegurðarsamkeppni fjalla. Svona á þetta að vera. Ég fór strax að hugsa um allar kisur og hunda í götunni minni og langaði að hlaupa út og skrá. Ég þakka ykkur fyrir að leyfa okkur öllum að lesa heimasíðuna ykkar. Hafiði það sem allra, allra best!
Við segjum takk fyrir og bjóðum hér með Vigdísi að koma í heimsókn til okkar í Finnbogastaðaskóla!
Bloggar | 26.11.2007 | 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag var skemmtilegur handavinnutími. Badda og Hrefna kenndu Júlíönu að stoppa í sokka og hekla, og Elín skólastjóri fékk tilsögn í prjónaskap.
Júlíana stefnir að því að verða jafndugleg að prjóna og afi hennar á Steinstúni, en hann prjónar alla sína sokka sjálfur.
Á myndinni er Hrefna að útskýra galdurinn fyrir Júlíönu.
Bloggar | 21.11.2007 | 14:46 (breytt kl. 16:47) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Geta fjöll verið í pilsi? Já, það lítur út fyrir það. Krossnesfjall einsog breiðir úr pilsinu sínu, þar sem það stendur stórt og tignarlegt.
Júlíönu fannst fjallið fyrst minna á risastórt sker, enda gengur Krossnesfjall næstum í sjó fram, en Hrefna í Árnesi benti á þetta með pilsið.
Á Krossnesi búa oddvitinn okkar í Árneshreppi, hún Oddný (sem allir kalla Systu) ásamt Úlfari bónda.
Og í fjörunni í Krossnesi er besta sundlaug í heimi. Þar vantar að vísu stökkpall, en það kemur ekki að sök því útsýnið er svo frábært.
Myndin er tekin frá Stóru-Ávík á fallegum sumardegi.
Bloggar | 21.11.2007 | 14:29 (breytt kl. 14:34) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú er búið að setja upp Sögusafn Finnbogastaðaskóla og þar eru ýmsar gersemar, til dæmis karamellubrúnn minkur, eldgamlar bækur, íslenski fáninn og mynd af stofnanda skólans, Guðmundi Þ. Guðmundssyni.
Safnið er í anddyri skólastjóraíbúðarinnar, sem búið er að mála og snyrta. Júlíana og Ásta eru báðar mjög hrifnar af safninu, sérstaklega gömlu ferðaorgeli og auðvitað karamelluminknum.
Í safninu eru veggspjöld af fuglum og jurtum, sem notuð voru til kennslu fyrir langa löngu, hreiður með allsskonar eggjum, rekaviðardrumbur sem er notaður sem stóll, undurfallegir steinar úr fjörunni og svakalega flottur krabbi, svo nokkuð sé nefnt.
Okkur finnst einsog við ferðumst aftur í tímann þegar við skoðum litla safnið okkar og erum mjög stolt af því!
Bloggar | 19.11.2007 | 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Júlíana er búin að rannsaka hve margir nota gleraugu í Árneshreppi! Sjálf er Júlíana með splunkuný gleraugu og finnst frábært að sjá allt vel og greinilega.
Niðurstöður í gleraugnarannsókninni komu Júlíönu nokkuð á óvart. Af 32 íbúum sem hafa vetursetu í Árneshreppi eru hvorki fleiri né færri en 25 sem nota gleraugu. Aðeins 7 nota alls ekki gleraugu.
Sumir nota gleraugun bara við lestur eða skriftir, en aðrir eru alltaf með þau. Júlíana notar gleraugun sín yfirleitt alltaf, nema þegar hún er þreytt á því að horfa í gegnum gler.
Myndin er tekin í skólanum í dag, af Júlíönu með nýju, flottu gleraugun.
Ps. Júlíana valdi fyrirsögnina!
Bloggar | 19.11.2007 | 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sept. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | |
7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 |
14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 |
21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 |
28 | 29 | 30 |
Bloggvinir
Tenglar
Tvist og bast í netheimum
- Númi Fjalar Númi Fjalar á myspace / aðeins fyrir útvalda ;D
- Gummi á Melum Guðmundur Björnsson
- Bæjarins besta Vestfirskar fréttir
- HSS Héraðssamband Strandamanna
- Galdrar Galdrasýning á Ströndum
- Kindur Sauðfjársetur á Ströndum
- Molar um Árneshrepp Árneshreppur í Wikipediu
- Félag Árneshreppsbúa Skemmtileg og stórfróðleg
- Veiðileysuætt Ættartal frá merkum bæ í Árneshreppi
- Djúpavík Flottasta hótel í heimi!
- Litli-Hjalli Jón Guðbjörn í Litlu-Ávík með ferskar fréttir
- Strandir Fréttir af Ströndum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.9.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 3429
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar