Færsluflokkur: Bloggar

Gullfjallið í Trékyllisvík

Árnesfjall baðar sig í vetrarsólinni

Þriðji keppandinn í fegurðarsamkeppni fjallanna í Trékyllisvík: Árnesfjall. 

Árnesfjall er tígulegt í vetrarsólinni í Trékyllisvík. Það er auðvitað uppáhalds fjall Ástu, enda á hún heima í Árnesi.

Árnestindur er 458 metra hár og við höfum heyrt að þar sé gull að finna!

Kannski förum við eftir skólann í dag og byrjum að grafa...


Afmæliskveðja til Jónasar

Jónas HallgrímssonJónas Hallgrímsson er að verða 200 ára! Hann fæddist 16. nóvember 1807 á Hrauni í Öxnadal. Okkur finnst hann gott ljóðskáld og völdum uppáhaldsljóðin okkar eftir Jónas í tilefni dagsins.

Ásta valdi Vorvísur:

Vorið góða, grænt og hlýtt,

græðir fjör um dalinn.

Allt er nú sem orðið nýtt,

ærnar, kýr og smalinn.

 

Kveður í runni, kvakar í mó

kvikur þrastasöngur.

Eins mig fýsir alltaf þó

aftur að fara í göngur.

 Júlíana valdi Ferðalok, sem henni finnst mjög fallegt ástarkvæði. Hér er síðasta erindið:

Háa skilur hnetti

himingeimur,

blað skilur bakka og egg.

En anda, sem unnast,

fær aldregi

eilífð að skilið.


Kastalinn í Trékyllisvík

Finnbogastaðafjall í TrékyllisvíkÞá er komið að næsta keppanda í fegurðarsamkeppni fjallanna í Trékyllisvík: Finnbogastaðafjalli.

Finnbogastaðir í Trékyllisvík (þar sem síminn galar eins og hani) heita eftir kappanum Finnboga ramma. Hann bjó í Trékyllisvík á 10. öld. Þegar hann var lítill hét hann öðru nafni: Urðarköttur!

Júlíönu finnst sagan um Urðarkött svakalega skemmtileg.

Finnbogastaðafjall minnir á kastala og Júlíana hefur séð tröllskessuandlit í klettunum.

Það er 548 metra hátt og okkur finnst það mjög fallegt.


Fegurðarsamkeppni fjallanna í Trékyllisvík

Hrafn, Kolbrá og Kátur undir Reykjaneshyrnu einn liðinn sumardag.Öll fjöllin í Trékyllisvík eru falleg, um það erum við alveg sammála hér í Finnbogastaðaskóla. En við höfum ákveðið, til gamans, að gera skoðanakönnun meðal lesenda um uppáhaldsfjallið þeirra í Trékyllisvík.

Sex fjöll keppa um sæmdarheitið fallegasta fjallið í Trékyllisvík. Þetta eru Reykjaneshyrna, Örkin, Finnbogastaðafjall, Árnestindur, Hlíðarhúsafjall og Krossnesfjall.

Við ætlum að birta myndir og upplýsingar um öll fjöllin og byrjum á Reykjaneshyrnu.

Reykjaneshyrna gengur hnarreist í sjó fram og er 316 metra há. Í Reykjaneshyrnu er stór hellir sem heitir Þórðarhellir. Sagan segir að þar hafi flóttamenn undan réttvísinni leitað skjóls í gamla daga.

Júlíana hefur skoðað Þórðarhelli og segir að þar sé alveg hægt að búa, þó þar sé örugglega kalt á veturna.

Ljósmyndin af Reykjaneshyrnu var tekin fyrir mörgum árum. Á myndinni eru Hrafn Jökulsson og Kolbrá litla systir hans en Hrafn var smalapiltur í Stóru-Ávík þegar hann var lítill. Með þeim er hundurinn Kátur, sem Hrafn segir að hafi verið einn besti vinur hans í heiminum.

Á næstu dögum birtum við myndir og upplýsingar um aðra keppendur í fegurðarsamkeppni fjallanna í Trékyllisvík

Skemmtilegra í feluleik í litlum skóla!

Sindri og JúlíanaBræðurnir Sindri Freyr og Brynjar Karl Ísleifssynir heimsóttu okkur á föstudaginn. Okkur fannst þeir svakalega skemmtilegir og gaman að fá þá í sveitina. Kannski flytur bara öll fjölskyldan í Árneshrepp til okkar! Sindri og Júlíana áttu þetta skemmtilega spjall, þegar þau æfðu sig í viðtalstækni.

Júlíana: Hvað heitir þú fullu nafni og hvar áttu heima?
Sindri: Ég heiti Sindri Freyr Ísleifsson og á heima á Akranesi.
Júlíana: Hvað heitir skólinn þinn?
Sindri: Brekkubæjarskóli.
Júlíana: Hvað ertu gamall?
Sindri: Ég er níu ára og á afmæli 22. mars
Júlíana: Hvernig tengistu Ströndum?
Sindri: Sko, pabbi minn átti heima á Ströndum, Djúpavík, þegar hann var lítill. Hann heitir Ísleifur. Pabbi hans og mamma, afa og amma, eru alltaf í Djúpavík á sumrin. Mamma átti heima á Kjörvogi þegar hún var lítil og afi og amma eru ennþá með búskap þar.

Sindri: Hefur þú alltaf átt heima hér?
Júlíana: Nei ég átti heima í Kópavogi þar til ég var sex ára.
Sindri:Hvernig tengist þú Ströndum?
Júlíana: Pabbi minn ólst upp á Steinstúni, þar sem afi og amma búa ennþá. Pabbi og mamma eru að taka við búskapnum þar þó afi hjálpi enn mjög mikið til.

Júlíana: Langar þig að flytja í Árneshrepp?
Sindri: Já, bæði og.
Júlíana: Hvers vegna myndir þú vilja flytja hingað?
Sindri: Af því að hér er oftar snjór, og væri örugglega skemmtilegra hér því þá þyrftu pabbi minn og mamma ekki alltaf að fara í vinnuna og ég og pabbi gætum verið oft í snjókasti.
Júlíana: Hvers myndir þú sakna mest?
Sindri: Akraness, vina minna og sundæfinga.

Sindri: Hvað finnst þér vera betra hér en í Kópavogi?
Júlíana: Hér er miklu stærra leiksvæði, stærri brekkur, snjósleðar og snjóhús. Svo finnst mér svo gaman að leika við Lappa og að fara í fjárhúsin með pabba.

Sindri: Hvers saknar þú?
Júlíana: Aðallega að hér eru miklu færri krakkar og það eina sem ég sakna úr Kópavogi er vinir mínir. En samt kemur á móti, að ef ég hefði ekki flutt hingað hefði ég til dæmis ekki kynnst Unni Sólveigu, bestu vinkonu minni.

Júlíana: Hvað er öðruvísi við að vera í stórum skóla?
Sindri: Það eru meiri líkur á að klessa á einhvern í stórum skóla. Svo er skemmtilegra að fara í feluleik í litlum skóla.
Júlíana: Það væri gaman að prófa að fara í stóran skóla, til að sjá hvort ég myndi rata um! Villist þú aldrei á göngunum?
Sindri: Nei, en ég villtist stundum þegar ég var í fyrsta bekk.


Hyrnan í hvítum kufli

Hyrnan og fjórar fræknarNú erum við að læra nöfnin á fjöllum og örnefnum í Árneshreppi. Haukur Jóhannesson sendi okkur líka svakalega fínt kort með nöfnum á skerjum í Trékyllisvík og örnefnum í Árnesey.

Í góða veðrinu í dag trítluðum við niður í fjöru með kortið góða og skoðuðum í leiðinni fallega fjallahringinn í Trékyllisvík.

Hérna erum við með sjálfa Reykjaneshyrnu í bakgrunni. Hún er komin í hvítan kufl, einsog önnur fjöll á Ströndum.


Saga skólans okkar

Skólinn okkarVið, Unnur og Júlíana, gerðum rannsókn á sögu skólans og hér er útkoman:

Skólinn var stofnaður árið 1929 af Guðmundi Þ. Guðmundssyni, langafabróður Unnar, og var byggður úr timbri og hitaður upp með kolaofni sem var staðsettur í kjallaranum.

Árið 1933 gerðist hræðilegasti atburður í sögu skólans: það kviknaði eldur og skólinn brann til kaldra kola. Í þessum eldsvoða dó enginn en mátti litlu muna því eldurinn kom upp að næturlagi þegar allir voru í fastasvefni.

Þetta sama ár  var skólinn endurbyggður og gerður stærri og varanlegri.

Heimavistin var frá árinu1929 til 1996 eða í 67 ár og eru 11 ár síðan hún hætti. Um þetta leyti, sem heimavistin var, voru um 60 börn í skólanum. Heimavistinni var skipt þannig að 30 voru í skólanum í 2 vikur og 30 heima í þessar sömu 2 vikur.

Júlíana tók viðtal við Gunnstein Gíslason, kennara Finnbogastaðaskóla frá árinu 1955 til 1960 og hann sagði henni að það hefðu verið 5 kynslóðir í skólanum og eru Júlíana og Ásta í þessum fimmta.

Við fengum flestar heimildir um byggingu skólans og eldsvoðann úr bók Torfa Guðbrandssonar, Strandamaður segir frá, sem var lengst allra skólastjóri í Finnbogastaðaskóla, eða í 28 ár.

Buffin hennar Böddu

Veisla í FinnbogastaðaskólaÞað var aldeilis veisla eftir heimilisfræðitíma hjá Böddu. Hún kenndi okkur að búa til heimsins besta buff, með salati og frönskum kartöflum.

Stóru stelpurnar, Júlíana og Unnur, elduðu buffin (undir traustri stjórn Böddu buffmeistara) en yngri stelpurnar, Ásta og Vilborg, bjuggu til ljúffengan eftirrétt: Ananas-frómas, sem gældi við bragðlaukana.


Þá voru 60 nemendur í Finnbogastaðaskóla...

Regnbogi í NorðurfirðiHaukur Jóhannesson sendi okkur skemmtilegt bréf, sem við þökkum kærlega fyrir. Við hvetjum fleiri til að senda okkur minningar úr Finnbogastaðaskóla. 

Heilar og sælar stúlkur. Það er gaman að sjá hvað þið eruð duglegar að setja upp þessa heimasíðu og halda henni við. Mér hlýnar vitaskuld um hjartaræturnar þegar ég sé minnst á Finnbogastaðaskóla. Þar átti ég heima í nokkur ár, 1949-1955.

Þá voru um 60 börn í skólanum og voru 30 þeirra í einu í skólanum en 30 heima. Þá voru flest börnin í heimavist á efri hæðinni og þar voru einnig fjölskylda skólastjórans og matráðskona. Niðri voru svo kennslustofurnar og eldhúsið eins og enn er.

Á efri hæðinni var matráðskonan í litla herberginu norðanmegin en fjölskylda skólastjórans í tveimur herbergjum þar á móti sem vita upp að Bæ. Nemendurnir gistu í herbergjunum tveimur sem vita að Finnbogastöðum. Þar voru þriggja hæða kojur fyrir fimmtán nemendur eða svo í hvoru herbergi. Stúlkurnar voru í herberginu nær þjóðveginum að mig minnir.

Skömmu eftir að ég flutti í skólann var skólastjóraíbúðin byggð og þá rýmkaðist heldur í húsinu. Svo var fjós, fjárhús og hlaða niður við þjóðveginn sem skólastjórinn hafði til afnota. Vitaskuld þurfti að afla matfanga fyrir mötuneytið og þau þurfti að sækja í kaupfélagið.

En í þá daga var ekki neinn akvegur og skólastjórinn fór yfir í Tangann (Norðurfjörð) á trillu sem hann átti og flutti aðföngin yfir Víkina. Mér eru þær ferðir minnisstæðar.

Myndin var tekin í Norðurfirði á dögunum, þegar vindurinn ólmaðist og himinninn skreytti sig með þessum fallega regnboga.


Kisutal Árneshrepps: Bara fjórar læður í sveitinni og enginn högni

 

Rannsóknin í fullum gangiÁsta og Vilborg hafa unnið ítarlega rannsókn á kisum og högum þeirra í Árneshreppi.

Rannsóknin fór þannig fram að þær hringdu á bæina og spurðu heimafólk um kisurnar.

Fyrst  spurðu þær hvað kisurnar heita og hvar þær eiga lögheimili. Síðan var spurt hvað þær eru gamlar, hvernig þær eru og hvað þeim þykir skemmitlegast að gera.


Krossnes  Gloría er norskur skógarköttur sem þykir skemmtilegast að leika sér.  Ekki er vitað um aldur Gloríu.

Bær:    Ögn er heimilisköttur sem þykir skemmtilegast að sofa. Hún er fjögurra ára.

Finnbogastaðir:     Písl er fjórtán ára gömul læða! Henni þykir skemmtilegast að sofa eins og Ögn.

Litla-Ávík:     Branda er tíu ára gömul læða sem þykir skemmtilegast að veiða. 

Eftir þessa rannsókn fannst Ástu og Vilborgu mjög merkilegt að Písl sé virkilega orðin fjórtán ára! Þeim finnst líka svolítið áhyggjuefni að enginn högni sé í sveitinni.

Því þá er nú ekki mjög líklegt að litlir kettlingar líti dagsins ljós.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband