Færsluflokkur: Bloggar
Í dag fjölgaði nemendum skólans um helming. Hingað eru komnar í heimsókn tvær systur ættaðar frá Bæ. Það eru þær Unnur Sólveig sem er í 6. bekk og Vilborg Guðbjörg sem er í 1. bekk.
Þær eru í vetrarfríi frá skólanum sínum í Reykjavík en ákváðu að koma í skólann til okkar á meðan þær eru í heimsókn hjá Guggu ömmu sinni í Bæ.
Það eru því fjórir nemendur í skólanum þessa viku sem þýðir að nemendafjöldinn hefur tvöfaldast.
Nú skiptum við í hópa í skólanum sem gerist ekki oft. Ásta og Vilborg eru saman í hóp að vinna að kisutali Árneshrepps og Júlíana og Unnur eru að vinna verkefni um sögu Finnbogastaðaskóla.
Afraksturinn mun svo birtast á heimasíðunni næstu daga.
Bloggar | 5.11.2007 | 14:34 (breytt kl. 14:40) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á Finnbogastöðum heyrist oft hanagal.
En þar er enginn hani.
Hæna býr í Árnesi en þar er engin hæna.
Dularfullt? Svo sannarlega!
Við erum að útbúa skrá yfir íbúana í Árneshreppi, einsog hið vel heppnaða hundatal er til marks um. Næstar á dagskrá voru hænurnar.
En því miður: Það eru engar hænur eftir í Árneshreppi.
Síminn hans Munda á Finnbogastöðum galar einsog alvöru hani og það er eina hanagalið í sveitinni. Og hún Hæna í Árnesi er aðal minkahundurinn í Árneshreppi!
Bloggar | 1.11.2007 | 13:45 (breytt kl. 13:46) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síðustu daga hafa verið miklar framkvæmdir í Finnbogastaðaskóla, þökk sé góðum gestum sem nú eru hér í sveitinni hjá okkur. Kiddi og Palli hafa skipt um glugga í skólastjóraíbúðinni og lagt glansandi parkett, sem er einsog fínasta skautasvell.
Við komumst að því að Kiddi er formaður í Félagi Árneshreppsbúa og ákváðum að leggja fyrir hann nokkrar spurningar.
Fyrst spurðum við hversu margir væru í félaginu. Júlíana giskaði á að 10 væru í félaginu en Ásta taldi að þeir væru bara tveir! Svarið kom þess vegna stórkostlega á óvart:
Næstum þúsund manns eru í Félagi Árneshreppsbúa!
Kiddi var næst spurður um starf félagsins, og hann sagði okkur að aðalfundur verði haldinn eftir tíu daga, 11. nóvember, og það er líka kaffisamsæti og myndasýning. Svo verður dansleikur og árshátíð í mars og þar verður mikið fjör. Félagið gefur líka út fréttabréf, 2-3 á ári.
Félagið var stofnað 10. apríl 1940 og við reiknuðum út að það er þess vegna orðið 67 ára.
Kiddi heitir fullu nafni Kristmundur Kristmundsson og er frá Gjögri. Júlíönu fannst gaman að heyra að hann fór í skóla með pabba hennar. Kiddi er vélfræðingur og meistari í vélsmiði, en hann og Palli geta smíðað allt sem þeir vilja, algjörir meistarar!
Konan hans heitir Elín Elísabet og þau eiga fimm börn! Fósturdætur Kidda heita Sigrún Hanna og Sandra Dögg, dæturnar heita Anna Kolbrún og Íris Kristrún og saman eiga þau Elín Elísabet Kristmund Sörla.
Okkur fannst mjög merkilegt að Kiddi skuli eiga fjórar dætur -- tvöfalt fleiri en við erum hér í Finnbogastaðaskóla!
Bloggar | 1.11.2007 | 11:51 (breytt kl. 11:59) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nú höfum við stelpurnar í skólanum rannsakað hversu margir hundar eiga heima í Árneshreppi. Þeir eru 12 og auk þess einn skemmtilegur og sætur gestur.
Hérna er hundatal Árneshrepps 2007:
Djúpavík: Tína
Kjörvogur: Vísa
Litla-Ávík: Sámur
Finnbogastaðir: Kolla og Tíra
Bær: Elding
Árnes: Hæna, Tíra og Rósa
Melar: Grímur
Krossnes: Vala og Spori (gestur)
Efri myndin er af Spora, sem er gestur á Krossnesi, og sérstakur heiðursgestur í sveitinni.
Neðri myndin er af Tíru, smalahundinum hans Munda á Finnbogastöðum.
Bloggar | 29.10.2007 | 14:29 (breytt 31.10.2007 kl. 15:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Guðmundur í Stóru-Ávík er síðasti farfuglinn í Árneshreppi í haust. Hann brunaði suður í gær og þá voru aðeins eftir í hreppnum íbúar sem búa hérna árið um kring.
Hér eru 15 heimili og eru samtals 32 íbúar í vetur, 16 karlar og 16 konur (þar af þrjár stelpur!)
Heimilin eru í Djúpavík, Kjörvogi, Litlu-Ávík, Finnbogastöðum, Bæ, Árnesi, Melum, Steinstúni, Norðurfirði og á Krossnesi.
Í sveitinni í vetur eru bara þrír krakkar: Við stelpurnar í skólanum og Aníta heimasæta í Bæ.
Myndin er einmitt af Bæ, sem skartar sínu fegursta í vetrarsólinni!
Bloggar | 29.10.2007 | 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Allir íbúar í Árneshreppi sem vettlingi valda eru boðnir í félagsvist í samkomuhúsinu í Trékyllisvík, mánudagskvöldið 29. október, klukkan 20.30. Kökur, kaffi og skemmtileg samverustund!
Safnað verður í ferðasjóð nemenda Finnbogastaðaskóla, svo málstaðurinn er góður!
Við vonum að við sjáum sem flest ykkar!
Bloggar | 28.10.2007 | 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við fórum í skólaferðalag til Borðeyrar í síðustu viku. Við höfðum hlakkað mikið til að fara í heimsókn til þeirra og hitta krakkana þar. Þau eru fimmtán í skólanum í tveimur deildum, eldri og yngri.
Þegar við renndum í hlað sáum við nokkra krakka í glugganum sem biðu eftir okkur og svo komu þau út á hlað og tóku á móti okkur eins og fínasta móttökunefnd.
Júlíönu þótti mjög gaman að fá að vera í tímum með fleiri krökkum. Hún var með eldri deildinni í tölvutíma og stærðfræði. Hún eignaðist strax góða vini í skólanum og hún hlakkar rosalega til að hitta þau aftur.
Í frímínútunum fórum við út með öllum krökkunum í fótbolta. Þau eiga svo svakalega fínan fótboltavöll með gervigrasi og allt.
Ásta var með yngri deildinni og fór í sinn fyrsta dönskutíma með þeim. Það fannst henni gaman og kann núna að segja to og tyve sem þýðir tuttugu og tveir.
Ástu fannst líka svo gaman að fá að vera með krökkunum í bekk og að vera með í öllu sem þau gera í skólanum.
Takk fyrir okkur! Við hlökkum til að fá opinbera heimsókn frá Borðeyri hingað í Finnbogastaðaskóla!
Bloggar | 18.10.2007 | 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á leiðinni til Borðeyrar stoppuðum við aðeins í Djúpavík og hittum Evu og Tínu. Tína er hundurinn í Djúpavík sem Eva og Ási eiga. Hún er brún og svört og mjög blíð. Hún lagðist eiginlega strax á bakið svo við gætum strokið á henni magann. Henni þykir það svo gott.
Eva sýndi okkur dúkkustellið sitt en það var svolítið óvænt sem leyndist í mjólkurkönnunni. Það var kuðlað bréf ofan í henni og þegar Eva tók það upp kom í ljós undir því sex gamlar barnatennur. Þær höfðu víst fylgt með í kaupunum án þess að hún vissi af því.
Eva gaf okkur svo góða piparmyntu í nesti fyrir ferðina til Borðeyrar.
Bloggar | 18.10.2007 | 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á leiðinni til Borðeyrar skoðuðum við þetta skilti. Þar er því miður stafsetningarvilla!
Hver er eiginlega munurinn á byrgi og Birgi? Skiptir það einhverju máli hvort við skrifum i eða y?
Bærinn Byrgisvík í Árneshreppi er nú í eyði, en það er engin afsökun fyrir því að skrifa nafnið vitlaust!
Bloggar | 18.10.2007 | 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hrafn kenndi öllum krökkunum á Borðeyri skák. Við lærðum að taflmennirnir eru mismunandi sterkir en allir hafa hlutverki að gegna. Litlu peðin eru metin á 1 stig, riddarar og biskupar á 3 stig, hrókarnir á 5 stig. Drottningin er langsterkust, 10 stig, en kóngsi er bara núll og nix -- þó hann sé mikilvægastur!
Við lærðum heimaskítsmát sem hann sagði að væri mjög sniðug og klók aðferð til að skáka og máta fullorðið fólk.
Svo var fjöltefli og Hrafn tefldi við alla krakkana í einu. Við fengum svo öll penna að gjöf. Það stóðu sig allir mjög vel og fannst gaman.
Bloggar | 18.10.2007 | 22:04 (breytt kl. 22:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sept. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | |
7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 |
14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 |
21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 |
28 | 29 | 30 |
Bloggvinir
Tenglar
Tvist og bast í netheimum
- Númi Fjalar Númi Fjalar á myspace / aðeins fyrir útvalda ;D
- Gummi á Melum Guðmundur Björnsson
- Bæjarins besta Vestfirskar fréttir
- HSS Héraðssamband Strandamanna
- Galdrar Galdrasýning á Ströndum
- Kindur Sauðfjársetur á Ströndum
- Molar um Árneshrepp Árneshreppur í Wikipediu
- Félag Árneshreppsbúa Skemmtileg og stórfróðleg
- Veiðileysuætt Ættartal frá merkum bæ í Árneshreppi
- Djúpavík Flottasta hótel í heimi!
- Litli-Hjalli Jón Guðbjörn í Litlu-Ávík með ferskar fréttir
- Strandir Fréttir af Ströndum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.9.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 3430
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar